Innlent

„Óheppilegt hefur formið verið“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þingmenn stjórnarandstöðunnar beindu spjótum sínum að Sigurði Inga Jóhannssyni samgönguráðherra á Alþingi í dag.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar beindu spjótum sínum að Sigurði Inga Jóhannssyni samgönguráðherra á Alþingi í dag. Vísir/Vilhelm
Þingmenn stjórnarandstöðunnar lýstu óánægju sinni á Alþingi í dag með að innihald samgönguáætlunar hafi verið birt í fjölmiðlum, áður en drög voru kynnt þinginu. Samgönguráðherra segir óheppilegt að málið hafi komið fram með þessum hætti. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 á fimmtudaginn var greint frá helstu tillögum sem boðaðar eru í nýrri samgönguáætlun. Daginn eftir birti samgönguráðherra yfirlit yfir helstu framkvæmdir til næstu fimmtán ára, með fyrirvara um samþykkt stjórnarþingflokkanna.

Fjöldi þingmanna stjórnarandstöðunnar kvöddu sér hljóðs á Alþingi í dag þar sem þeir gagnrýndu að þeim hafi ekki verið kynnt samgönguáætlun, áður en greint var frá innihaldi hennar í fjölmiðlum. Drögin höfðu verið kynnt þingmönnum stjórnarflokkanna.

„Einhver, hvort sem það er nú ráðherra sjálfur eða þingmenn stjórnarflokkanna, hefur séð ástæðu til þess að leka þessari samgönguáætlun í fjölmiðla. Við höfum bara séð myndir af henni, líklega á Stöð 2 ef ég man rétt, úr þessum pappír. Á meðan hefur stjórnarandstaðan ekkert fengið að vita,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins.

Fleiri tóku í sama streng, meðal annars Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. „Við höfum líka alla helgina þurft að vera að svara fyrir eitthvað sem að við höfum bara aldrei séð,“ sagði Helga Vala. „Ég er meðlimur í umhverfis- og samgöngunefnd og ég hef engin svör vegna þess að ég hef ekki fengið þessa samgönguáætlun sem allir aðrir virðast hafa fengið,“ sagði Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra sagði eðlilegt að umfjöllun ljúki innan stjórnarflokkanna áður en samgönguáætlun verði kynnt í heild sinni. „Hins vegar þá væri það alveg í lófa lagið að boða til fundar í umhverfis- og samgöngunefnd og fara yfir þessi meginatriði, til að mynda á morgun ef að það væri flötur á því,“ sagði Sigurður Ingi. „En óheppilegt hefur formið verið.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×