Innlent

Manni bjargað úr sjónum við Húsavík

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Maðurinn var í sjónum norðan við Húsavík í um það bil tvær klukkustundir.
Maðurinn var í sjónum norðan við Húsavík í um það bil tvær klukkustundir. Getty/Martin Ystenes
Laust fyrir klukkan átta í kvöld barst lögreglunni á Húsavík tilkynning um að maður hefði lent í sjónum um fimm kílómetra norður af bænum. Samkvæmt Facebook-færslu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra var ekki ljóst á þeirri stundu hvernig maðurinn hafði hafnað í sjónum, né hvernig hann komst jafn langt frá landi og raun var.

Lögreglan hélt af stað til þess að bjarga manninum, en henni til liðsauka voru sjúkraliðar og björgunarsveitin Garðar. Manninum var komið um borð í björgunarbátinn Jón Kjartansson innan við hálfri klukkustund eftir að lögreglu barst útkallið. Þá hafði maðurinn verið um tvær klukkustundir í sjónum en það var félagi hans sem gerði lögreglu viðvart þegar honum þótti tíminn sem maðurinn hafði verið úti vera orðinn grunsamlega langur.

Þegar manninum hafði verið bjargað kom í ljós að hann hafði verið við leik á fallhlífarbretti utan við Höfðagerðissand /Eyvíkurfjöru en fallið af brettinu með þeim afleiðingum að hann fór úr axlarlið og komst því ekki hjálparlaust til lands.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu gekk björgunin vel og var maðurinn færður til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×