Erlent

Sífellt fleiri trúa að Kavanaugh sé sekur um kynferðisbrot

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Brett Kavanaugh og eiginkona hans Ashley Estes Kavanaugh.
Brett Kavanaugh og eiginkona hans Ashley Estes Kavanaugh. AP/Jacquelyn Martin
Kannanir sýna að sífellt fleiri kjósendur í Bandaríkjunum snúast gegn Brett Kavanaugh, sem er tilnefndur sem hæstaréttadómari, en hann er sakaður um kynferðisbrot á yngri árum. Hann segist þó alls ekki ætla að draga sig í hlé, enda sé ekkert hæft í þeim ásökunum.

Málið snýst ekki bara um Kavanaugh sjálfan heldur þá stöðu sem Repúblikanaflokkurinn er kominn í fyrir þingkosningarnar í nóvember. Takist ekki að fá Kavanaugh staðfestan sem hæstaréttardómara er útilokað að tími gefist til að tilnefna og staðfesta einhvern annan í hans stað fyrir kosningarnar. Valdahlutföllin á þingi gætu síðan verið önnur þegar loks kæmi að staðfestingunni.

Þar fyrir utan sýna skoðanakannanir að umræðan um meint kynferðisbrot Kavanaughs fer illa í marga kjósendur, sérstaklega konur. Samkvæmt könnun sem sjónvarpsstöðin Fox News birti segjast 36% kjósenda afdráttarlaust trúa Christine Ford, sem segir að Kavanaugh hafi reynt að nauðga sér í samkvæmi. 34% eru á báðum áttum en aðeins 30% telja hana beinlínis vera að ljúga.

Það endurspeglast síðan í því að 50% almennra kjósenda vilja ekki að Kavanaugh taki sæti sem hæstaréttardómari, á móti 40% sem styðja tilnefningu hans. Það er töluverð breyting frá síðustu könnun í ágúst, stuðningur við Kavanaugh fer minnkandi meðal almennings óháð aldri, kyni og menntun.

Fox News hefur gert kannanir sem þessar frá árinu 2005 og aldrei áður hefur mælst jafn mikil andstaða við tilnefningu hæstaréttardómara.


Tengdar fréttir

„Ég er ekki að fara neitt“

Tvær konur hafa stigið fram og sakað Kavanaugh um kynferðisbrot á árum áður en hann þvertekur fyrir að hafa brotið af sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×