Erlent

Fyrstur til að fá sekt fyrir dónatal og flengingu í París

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Maðurinn sló unga konu í rassinn og hrópaði á eftir henni að hún væri hóra.
Maðurinn sló unga konu í rassinn og hrópaði á eftir henni að hún væri hóra. Vísir/getty
Fyrsti maðurinn til að vera dæmdur fyrir brot á nýjum lögum um kynferðislega áreitni í almannarýminu í París hefur verið gert að greiða tæplega fjörutíu þúsund íslenskar krónur fyrir að slá ókunnuga konu í rassinn og æpa klúryrði á eftir henni. Þetta átti sér stað í strætisvagni síðasta föstudag.

Auk þess að hljóta sekt var hann dæmdur í níu mánaða fangelsi því þegar strætóbílstjórinn reyndi að koma ungu konunni til bjargar réðst maðurinn á bílstjórann.

Fréttastofa CNN greinir frá því að strætóbílstjórinn hafi tekið eftir því að maðurinn væri að áreita kvenkyns farþega. Hann hafi því lokað dyrunum svo maðurinn gæti ekki flúið og því næst hringt á lögregluna en það var þá sem maðurinn réðst á bílstjórann.

Að sögn saksóknara í málinu er maðurinn á þrítugsaldri og var hann undir áhrifum þegar hann áreitti konuna kynferðislega. Sjálf er konan aðeins 21 árs gömul en hann hrópaði á eftir henni að hún væri hóra og með stór brjóst.

Skera upp herör gegn áreitni á götum úti

Marlene Schippa, jafnréttismálaráðherra Frakklands, hrósaði bílstjóranum í hástert fyrir að hafa brugðist við og komið ungu konunni til aðstoðar.

„Húrra fyrir bílstjóranum eftirtektargóða og fyrir þessari sekt. Saman getum við bundið enda á kynferðislegt ofbeldi.“

Sektin sem maðurinn hlaut markar fyrsta skiptið sem brotið er gegn nýju lögunum. Lögin kveða á um bann við götuáreiti svo sem niðurlægjandi blístri á eftir fólki í almannarýminu og gróf, niðurlægjandi ummæli. Lögin voru samþykkt í júlímánuði og er ætlað að taka á þeim umfangsmikla vanda sem kynferðisleg áreitni á götum Frakklands er í raun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×