Enski boltinn

Roman Abramovich sagður vera ógn við öryggið í Sviss

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Abramovich á leik hjá Chelsea.
Abramovich á leik hjá Chelsea. vísir/getty
Rússneski milljarðamæringurinn og eigandi Chelsea, Roman Abramovich, vildi flytja til Sviss en umsókn hans var hafnað á þeim forsendum að hann gæti verið ógn við landið.

Bæjaryfirvöld, þar sem Abramovich vildi flytja, höfðu samþykkt umsókn Rússans en lögreglan hafnaði umsókninni vegna gruns um að Abramovich gæti tengst peningaþvætti eða verið í sambandi við skipulögð glæpasamtök.

Rússinn hefur aldrei verið dæmdur fyrir neina glæpi og hafnar öllum ásökunum. Í Sviss skiptir það ekki máli. Ef lögreglan segir vera rökstuddan grun fyrir því að einstaklingur sé á einhvern hátt vafasamur þá dugir það til að hafna umsókn hans um búsetu í landinu.

Yfirvöld í Sviss eru að reyna að laga ímynd landsins sem hefur löngum verið tengd við bankaleynd og peningaþvætti.

Abramovich hefur ekki getað verið eins mikið á Englandi og hann vill og á dögunum hætti hann við að endurnýja vegabréfaumsókn sína í landinu. Vandræði með pappíra urðu þess valdandi að hann komst ekki á Wembley til þess að sjá bikarúrslitaleik Chelsea og Man. Utd. Við það var hann verulega ósáttur.

Hann hefur nú fengið ísraelskt ríkisfang en ísraelskir ríkisborgarar geta ferðast til Bretlands án vegabréfaumsóknar. Það geta Rússar ekki. Hann ætti því ekki að missa af fleiri leikjum á næstunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×