Enski boltinn

Hazard neitar því að vera búinn að framlengja við Chelsea

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hazard fagnar markinu frábæra.
Hazard fagnar markinu frábæra. vísir/getty
Eden Hazard, leikmaður Chelsea, er ekki búinn að framlengja samning sinn við félagið eins og fram hefur komið í fjölmiðlum ytra. Hann hafnaði þeim fréttum eftir sigurinn á Liverpool í deildabikarnum í vikunni.

Stuðningsmenn Chelsea þurfa þó ekkert að óttast þar sem að núverandi samningur Belgans rennur ekki út fyrr en eftir tvö ár. Real Madrid er búið að vera á eftir honum undanfarin misseri en það fær hann allavega ekki frítt næstu tvö árin.

Belgíski framherjinn er búinn að vera í svakalegu stuði í byrjun leiktíðar en hann skoraði sigurmarkið í deildabikarnum á móti Liverpool eftir trylltan einleik. Hann nýtur lífsins undir stjórn Maurizio Sarri en á eftir að framlengja á Stamford Bridge.

„Ég er ekki búinn að skrifa undir nýjan samning,“ sagði Hazard sem hrósaði ítalska stjóranum Sarri sem byrjar frábærlega með Chelsea-liðið.

„Sarri er stjóri sem vill hafa boltann. Það munar miklu um það. Hann er samt Ítali eins og Conte þannig að hann er taktískur og allir þurfa að leggja mikið á sig á æfingum.“

„Ég vil ekki segja að ég fékk ekki frelsi undir stjórn fyrrverandi stjóra Chelsea, Conte og Mourinho. Þeir leyfðu mér líka að gera það sem ég get á síðasta þriðjungi vallarins. Þess vegna var ég svona góður undir þeirra stjórn líka,“ segir Eden Hazard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×