Enski boltinn

Sarri: Liverpool tilbúið til að verða Englandsmeistari

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Klopp verður ánægður með þetta.
Klopp verður ánægður með þetta. vísir/getty
Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Chelsea, telur Liverpool tilbúið til að verða Englandsmeistari eftir fjögur ár undir stjórn Jürgen Klopp en liðin mætast öðru sinni á fjórum dögum síðdegis á morgun.

Chelsea var fyrsta liðið til að vinna Liverpool á leiktíðinni í fyrrakvöld þegar að það skellti Rauða hernum í deildabikarnum á Anfield. Nú mætast þau aftur í ensku úrvalsdeildinni.

Með sigri kemst Chelsea upp fyrir Liverpool en lærisveinar Maurizio Sarri eru ósigraðir í fyrstu sex leikjunum með fimm sigra og eitt jafntefli.

„Það er frekar skrítið að Liverpool hafi ekki unnið deildina í 28 ár en það mikilvæga er að liðið er tilbúið núna,“ sagði Sarri á blaðamannafundi í dag aðspurður út í eyðimerkurgöngu Liverpool í ensku úrvalsdeildinni síðustu áratugina.

„Liverpool er frábært lið sem er búið að vinna undir stjórn sama þjálfarans í fjögur ár. Nú er Liverpool tilbúið til að vinna deildina,“ sagði Maurizio Sarri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×