Viðskipti innlent

LEX kaupir GH Sigurgeirsson

Birgir Olgeirsson skrifar
Örn Gunnarsson, faglegur framkvæmdastjóri Lex.
Örn Gunnarsson, faglegur framkvæmdastjóri Lex.
Lögmannsstofan LEX hefur keypt hið 80 ára gamla fyrirtæki GH Sigurgeirsson, sem sérhæfir sig í vörumerkja- og einkaleyfarétti. Fyrirtækið mun fá nafnið GH Sigurgeirsson Intellectual Property og verður rekið sem sjálfstætt dótturfyrirtæki LEX.

LEX hefur lengi verið mjög framarlega á sviði hugverkaréttar, og hefur á að skipa meðal annars tveimur af helstu lögmönnum landsins í því sviði, þeim Erlu S. Árnadóttur og Huldu Árnadóttur. Með kaupunum er ætlunin að breikka þetta svið til muna.

Allir viðskiptavinir GH Sigurgeirssonar eru erlendir, en þar á meðal eru um 500 fyrirtæki hér á landi í eigu erlendra aðila. Gengið var frá kaupunum endanlega núna í haust en þá ákvað eigandinn, Gunnar H. Sigurgeirsson, að setjast í helgan stein. Hann hafði þá verið starfandi í rúm 50 ár.

„Við viljum að viðskiptavinir okkar geti fengið allt á einum stað hvað hugverkarétt varðar. Málum er tengjast hugverkaréttindum fer fjölgandi, hvort sem það er í hugbúnaðargeiranum, á sviði einkaleyfa, vörumerkja eða í hinum skapandi geira, tónlist, kvikmyndum eða bókmenntum. Við sjáum þetta fyrir okkur sem mikið vaxtarsvið í framtíðinni í íslenskri lögfræði, sem unnt er að sinna betur,“ er haft eftir Erni Gunnarssyni faglegum framkvæmdastjóra Lex.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×