Innlent

Erfitt verkefni að leggja mat á tjón þolenda í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra bað fyrrum sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu og aðstandendur þeirra afsökunar í dag fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Sérstökum starfshópi verður komið á fót til að leiða sáttaumleitanir og leggja mat á tjón þolenda í málinu.

Fimm sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu voru sýknaðir við endurupptöku málsins í Hæstarétti í gær. Forsætisráðherra brást við þessari niðurstöðu í morgun með því að senda frá sér yfirlýsingu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar þar sem fyrrum sakborningar og aðstandendur þeirra eru beðnir afsökunar.

„Ég fagna þessum málalyktum í einu umdeildasta sakamáli Íslandssögunnar og þess vegna var það mín tillaga að ríkisstjórnin myndi bregðast strax við og sendum frá okkur þessa yfirlýsingu þar sem við biðjum fyrrum sakborninga, aðstandendur þeirra og aðra þá sem hafa átt um sárt að binda vegna þessa máls, afsökunar á því ranglæti sem þau hafa mátt þola,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Ríkisstjórnin hefur einnig ákveðið að skipa sérstakan starfshóp sem fær það hlutverk að leiða viðræður og sáttaumleitanir og leggja mat á mögulegt tjón.

„Þetta verður ekki einfalt verkefni en eigi að síður er mjög mikilvægt að ríkið taki frumkvæði í þessu máli,“ segir Katrín.

Helga Vala Helgadóttir þingmaður samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis segir eðlilegt og sjálfsagt að ríkisstjórnin biðjist afsökunar með þessum hætti.

„Auðvitað fagnar maður því að þarna sé kominn sýknudómur yfir þessum einstaklingum. Um leið er maður pínulítið hryggur og vonsvikin yfir því að Hæstiréttur fjalli ekki málið sem slíkt. Hæstiréttur rökstyður í rauninni ekki niðurstöðu sína með öðru en því að þar sem ákæruvaldið fór fram á sýknu þá lagatæknilega geti þeir ekki gert annað en að sýkna. Það er engin umfjöllun um málið sem slíkt eða það dómsmorð sem átti sér stað fyrir tæpum fjörutíu árum,“ segir Helga Vala.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×