Innlent

Bæjarstjóri Akureyrar fær 1,6 milljónir

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Ásthildur var ráðin bæjarstjóri frá 14. september síðastliðnum til loka kjörtímabils.
Ásthildur var ráðin bæjarstjóri frá 14. september síðastliðnum til loka kjörtímabils. AKUREYRARBÆR
Bæjarráð Akureyrarkaupstaðar samþykkti á fundi sínum á miðvikudag ráðningarsamning og launakjör Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra. Ásthildur var ráðin bæjarstjóri frá 14. september síðastliðnum til loka kjörtímabils.

Samkvæmt ráðningarsamningnum fær Ásthildur 1.150 þúsund krónur í dagvinnulaun sem taka breytingum samkvæmt launavísitölu í janúar og júlí ár hvert. Ofan á það leggst síðan stjórnendaálag sem nemur 517.500 krónum, eða 45 prósentum af mánaðarlaunum samkvæmt samningnum.

Stjórnendaálag er sagt þóknun fyrir unna yfirvinnu og allt áreiti utan dagvinnutíma, undirbúning, ferðatíma, móttökur gesta og annað vinnuframlag utan dagvinnutíma. 

Alls verða laun bæjarstjórans því 1.667.500 krónur en Ásthildur fær ekki greitt aukalega fyrir setu í bæjarstjórn, bæjarráði eða öðrum nefndum bæjarins. Bæjarstjóri fær greitt fyrir akstur í þágu vinnuveitanda á eigin bifreið samkvæmt skráningu í akstursdagbók. Bærinn greiðir einnig kostnað bæjarstjóra vegna notkunar á farsíma ásamt kostnaði við heimanettengingar.

Bærinn leggur bæjarstjóra til farsíma og fartölvu til notkunar í störfum og kaupir líf- og slysatryggingu fyrir bæjarstjórann.

Fréttablaðið greindi frá því í maí að laun bæjarstjóra Akureyrar voru alls 1.562 þúsund krónur á síðasta  ári. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×