Shaw farinn heim til Manchester

Luke Shaw hefur yfirgefið herbúðir enska landsliðsins og er farinn aftur til Manchester eftir höfuðmeiðsli í leik Englands og Spánar á laugardag.
Shaw var borinn af velli á laugardaginn eftir að hafa fengið heilahristing eftir samstuð við Dani Carvajal í leiknum á Wembley.
Varnarmaðurinn mætti á æfingasvæði landsliðsins St George's Park í dag í skoðun og var síðan hleypt heim til Manchester þar sem ekkert kom upp í læknisskoðuninni.
Shaw verður því ekki á meðal leikmanna sem Gareth Southgate getur valið um fyrir vináttulandsleik gegn Sviss á morgun.
Shaw byrjaði tímabilið frábærlega fyrir Manchester United og lagði upp eina mark Englands í leiknum á laugardaginn áður en hann meiddist. Bakvörðurinn hefur verið mjög óheppinn með meiðsli á ferlinum og óttuðust stuðningsmenn United það versta þegar hann var borinn út af um helgina.
Höfuðmeiðslin virðast þó ekki hafa verið alvarleg og má búast við Shaw í liði United seinna í mánuðinum.