Innlent

Karen Kjartansdóttir nýr framkvæmdastjóri Samfylkingar

Jakob Bjarnar skrifar
Karen er þekkt fyrir að taka að sér ögrandi verkefni.
Karen er þekkt fyrir að taka að sér ögrandi verkefni. fréttablaðið/eyþór
Karen Kjartansdóttir hefur verið ráðin til starfa hjá Samfylkingunni og þá sem framkvæmdastjóri. Karen var síðast upplýsingafulltrúi United Silicon, hins umdeilda fyrirtækis á Suðurnesjum og þar áður var hún hjá útgerðarmönnum. Karen er þannig þekkt fyrir að ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur?

Neinei, þetta er einhver áskorunarfíkn,

segir Karen og gantast með það, að hún hafi ekki veigrað sér við því að taka að sér ögrandi verkefni. Hún segir að þetta hafi gerst hratt, það að hún tók við þessu starfi. Og segir sóknarfæri í stöðunni fyrir Samfylkinguna. Kristján Guy Burgess var framkvæmdastjóri en hann lét af störfum árið 2016. Þetta var í kjölfar afhroðs sem Samfylkingin galt í kosningum þá. Botninum er náð, sagði Kristján við það tækifæri. Enginn hefur gengt stöðunni síðan og í mörg horn að líta.

„Og ef við gefum okkur að ekki verði kosið alveg á næstunni get ég ekki séð annað en það verði mjög gaman að koma að uppbyggingu þessa flokks og skýra stefnuna,“ segir Karen. Hún segir friðsælla um að litast en oft áður og það sé gott að fá tækifæri til að koma að málum og vinna að því að kjarna flokkinn.

Karen segist hafa gætt þess að halda sínum flokkspólitísku skoðunum til hlés, eða allt frá því hún var í blaðamennsku.

„Ég brenn fyrir fólki, venjulega horfi ég á pólitík út frá fólki. Stefnumál Samfylkingar í grunninn, sem byggjast á frjálslyndi og víðsýni, er nokkuð sem ég hef alltaf tengt mjög við,“ segir Karen. Og bætir því við að evrópskir jafnaðarmannaflokkar hafa verið burðarstólpar í ríkisstjórnum þeirra landa sem við helst lítum til. „Og urðu til að móta norrænt velferðarsamfélag. Við megum ekki gleyma því.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×