Erlent

Aðalframleiðandi 60 mínútna rekinn vegna harðorðra smáskilaboða

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jeff Fager, fyrir miðju, ásamt fréttamönnum 60 mínútna.
Jeff Fager, fyrir miðju, ásamt fréttamönnum 60 mínútna. Vísir/Getty
Jeff Fager, sem verið hefur aðalframleiðandi fréttaskýringaþáttarins 60 Minutes á CBC-sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum var rekinn í dag. Rannsókn vegna óviðeigandi og kynferðislegrar hegðunar hans í garð kvenna sem starfa hjá CBS var til rannsóknar en sjálfur segir Fager að brottreksturinn sé rannsókninni ótengdur.

Undir það tekur David Rhodes, forseti CBS News og yfirmaður Fager, en í tölvupósti sem sendur var til samstarfsmanna hans í dag segir að brottreksturinn tengist ásökunum á hendur Fager ekki, í það minnsta á beinan hátt.

Í grein blaðamannsins Ronan Farrow sem birtist í New Yorker í síðasta mánuði segir að minnst sex konur hafi greint Farrow frá því að Fager hafi gerst sekur um að snerta konur í starfsmannaveislum á þann hátt að þeim þætti það óþægilegt. Þá var Fager einnig sakaður um það að vernda samstarfsmenn sína sem sakaðir voru um óviðeigandi hegðun af öðrum samstarfsfólki.

Leslie Moonves lét nýverið af störfum sem forseti CBS eftir fjölmargar ásakanir í garð hans.Vísir/Getty

Skrifaði harðorð skilaboð til fréttamanns sem vann að frétt um starfslok forstjóra CBS

CBS réð tvær lögfræðistofur til þess að rannsaka ásakanirnar á hendur Fager og er sú rannsókn enn í gangi. Mikið hefur gengið á hjá CBS að undanförnu en örfáir dagar eru síðan Leslie Moonwes, forseti fyrirtækisins, hætti störfum eftir hafa verið sakaður um kynferðislega áreitni af fjölmörgum konum.

Fager, sem er aðeins annar maðurinn til þess að gegna stöðu aðalframleiðanda í hálfrar aldar sögu hins virta fréttaskýringarþáttar, segir í yfirlýsingu að brottrekstur hans megi rekja til þess að hann hafi sent fréttamanni CBS sem starfaði undir honum harðorð smáskilaboð þar sem hann krafði fréttamanninn um að sýna sanngirni í störfum sínum.

„Orðin sem ég notaði voru hvöss og þrátt fyrir að blaðamenn sé undir ströngum skilyrðum að sýna sanngirni líkaði CBS ekki við orð mín,“ skrifaði Fager. „Ein slík skilaboð verðskulda ekki brottrekstur eftir 36 ára starf, en svo virðist vera.“

Samkvæmt heimildum New York Timesvar blaðamaðurinn sem hann sendi skilaboðin harðorðu í teymi CBS News sem vann að fréttaskrifum um ásakanirnar gegn Moonves. Segir í frétt New York Times að með því hafi Fager farið yfir strikið og því hafi hann verið rekinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×