Enski boltinn

Soutgate ósammála sérfræðingi Sky um stöðu Rashford hjá United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rashford og Mourinho. Er framtíð í þessu samstarfi?
Rashford og Mourinho. Er framtíð í þessu samstarfi? vísir/getty

Phil Thompson, fyrrverandi leikmaður Liverpool og sérfræðingur Sky Sports um ensku úrvalsdeildina, segir Marcus Rashford, framherja Manchester United, ekki njóta trausts hjá José Mourinho, knattspyrnustjóra félagsins.

Rashford er ekki búinn að byrja leik fyrir United síðan í fyrstu umferð þegar að hann var í byrjunarliðinu á móti Leicester en Romelu Lukaku situr einn að framherjastöðunni þessa dagana.

Rashford var samt sem áður í byrjunarliði enska landsliðsins á dögunum og skoraði bæði í tapi gegn Spáni í Þjóðadeildinni og sigurmark Englands á móti Sviss í vináttulandsleik á þriðjudagskvöldið.

„Marcus Rashford er hæfileikaríkur strákur en ég held að hann passi ekki inn í hlutina hjá Manchester United. Ég held að hann njóti ekki trausts hjá stjóranum þannig að hann mun ekki fá regluleg tækifæri í liðinu,“ segir Thompson.

„Hann er aðeins tvítugur og þarf kannski aðeins meiri tíma en þetta er stórt tímabil fyrir hann. Rashford gæti þurft að taka stóra ákvörðun í lok tímabilsins,“ segir hann.

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, er ósammála Thompson þrátt fyrir að framherjinn ungi hafi aðeins spilað 122 mínútur á þessu tímabili.

„Það er ekki mitt starf að hafa áhrif á knattspyrnustjórana. Þeir sinna erfiðu starfi, sérstaklega þeir sem að stýra bestu liðunum. Þar er mikil samkeppni um stöður,“ segir Southgate.

„José hefur mikið dálæti á Marcus og er mikill aðdáandi. Mourinho þarf samt að sinna sínu starfi. Það er mikil samkeppni um stöður hjá United og það verða menn að skilja,“ segir Gareth Southgate.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.