Enski boltinn

Liverpool sendi einkaþotu á eftir brasilíska þríeykinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Roberto Firmino er mættur til Liverpool.
Roberto Firmino er mættur til Liverpool. Vísir/Getty
Stuðningsmenn Liverpool þurfa ekkert að óttast þegar kemur að brasilíska landsliðsþríeykinu þeirra á morgun því það er allt klárt í slaginn fyrir stórleikinn á móti Tottenham í hádeginu á morgun.

Alisson, Roberto Firmino og Fabinho voru kallaðir inn í brasilíska landsliðið sem spilaði tvo leiki á móti Bandaríkjunum og El Salvador í Bandaríkjunum á dögunum en þeir eru mættir aftur.

Oft hefur verið vandamál með að ná leikmönnum frá Suður-Ameríku á réttum tíma eftir landsliðsverkefni þegar að þeir fljúga yfir hafið en Liverpool sendi einkaþotu til að sækja þremenningana.

Allir þrír hafa farið vel af stað með Liverpool en Alisson er aðeins búinn að fá á sig eitt mark í fyrstu fjórum leikjunum sem Liverpool er búið að vinna með markatölunni 9-1.

Roberto Firmino er búinn að skora eitt mark og leggja upp önnur tvö en hann er búinn að spila 339 mínútur af 360 hjá Liverpool á tímabilinu.

Liverpool er á toppnum eftir fjórar umferðir með fullt hús stiga en Tottenham er búið að vinna þrjá leiki af fjórum, skora níu mörk og fá á sig fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×