Erlent

Losun gróðurhúsalofttegunda þegar náð hámarki í stórum borgum

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá bíllausum degi í París sem er ein þeirra borga þar sem losun gróðurhúsalofttegunda hefur minnkað undanfarin ár.
Frá bíllausum degi í París sem er ein þeirra borga þar sem losun gróðurhúsalofttegunda hefur minnkað undanfarin ár. Vísir/EPA
Barcelona, Varsjá og Sydney eru á meðal 27 stórra borga þar sem losun gróðurhúsalofttegunda náði hámarki árið 2012 og hefur dregist saman síðan. Samdrátturinn náðist þrátt fyrir hagvöxt og íbúafjölgun á sama tíma.

Samkvæmt nýjum tölum C40-borganna, regnhlífarsamtaka um loftslagsaðgerðir 96 stórra þéttbýlisstaða um allan heim, hefur losun borganna dregist saman um 2% á ári að meðaltali þrátt fyrir 3% hagvöxt á ári á sama tímabili.

Árangrinum hafa borgirnar náð með því að færa sig yfir í endurnýjanlega orkugjafa og bjóða upp á hagkvæma valkosti við einkabílinn, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Útblástur borganna 27 sem náðu hámarki í losun fyrir sex árum eru nú að minnsta kosti tíu prósent lægri en þá.

Borgirnar sem um ræðir eru Barcelona, Basel, Berlín, Boston, Chicago, Kaupmannahöfn, Heidelberg, London, Los Angeles, Madrid, Melbourne, Mílanó, Montreal, Nýja-Orleans, New York, Osló, París, Fíladelfía, Portland, Róm, San Francisco, Stokkhólmur, Sydney, Toronto, Vancouver, Varsjá og Washington-borg.

„Þetta er ekki afleiðing byltingar heldur stöðugrar þróunar í borgarlífinu okkar, nefnilega á því hvernig við ferðumst um og hvernig við drögum úr, endurvinnum og endurnýtum úrgang,“ segir Guiseppe Sala, borgarstjóri Mílanó.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×