Erlent

Páfinn sendi mafíunni tóninn

Samúel Karl Ólason skrifar
Páfinn í Palermo.
Páfinn í Palermo. Vísir/AP
Frans páfi er nú staddur á Sikiley á Ítalíu þar sem hann heiðraði prest sem myrtur var af mafíunni fyrir 25 árum. Presturinn Giuseppe Puglisi var skotinn til bana árið 1993 þegar hann storkaði mafíunni vegna yfirráða þeirra yfir hverfum fátækra. Á því tímabili hafði mafían í Sikiley staðið í blóðugum átökum við yfirvöld eyjunnar.

Puglisi hafði unnið hörðum höndum að því að forða ungu fólki frá glæpum. Þar til hann var skotinn í höfuðið.

Sagan segir að hann hafi brosað og sagt: „Ég er búinn að vera að bíða eftir ykkur“ áður en hann var skotinn, samkvæmt einum af morðingjum hans.

Allt að hundrað þúsund manns sóttu messu páfans í Palermo í dag. Þar sagði hann ljóst að meðlimir mafíunnar gætu ekki litið á sig sem kristið fólk. Það væri ómögulegt að vera bæði.

„Breytist. Hættið að hugsa um ykkur sjálf og peningana ykkar,“ sagði Frans og kallaði eftir iðrun mafíósa.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem páfi kallar eftir iðrun mafíósa, eins og AFP fréttaveitan bendir á. Skömmu eftir morð Puglisi var Jón Páll páfi mættur til Palero þar sem hann sömuleiðis kallaði eftir því að glæpamenn hættu að fremja glæpi. Þar að auki hvatti hann íbúa Sikileyjar til að berjast gegn mafíunni.

Tveimur mánuðum síðar voru sprengjuárásir gerðar á tvær kirkjur á Sikiley.

Frans páfi hefur ítrekað gagnrýnt mafíuna frá því að hann varð páfi árið 2013 og hefur hann kallað eftir því að trúað fólk hætti að vinna með meðlimum mafíunnar. Mafíósar eru hins vegar oftar en ekki kaþólskir og taka jafnvel þátt í störfum kirkja í sóknum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×