Innlent

Þurfa að greiða virðisaukaskatt af skildingi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Mynt áþekk þeirri sem deilt var um.
Mynt áþekk þeirri sem deilt var um. NORDICPHOTOS/GETTY
Yfirskattanefnd (YSKN) hefur staðfest úrskurð Tollstjóra um að einstaklingar þurfi að greiða virðisaukaskatt af innfluttri eins dollars mynt. Báðir aðilar töldu að um söfnunargrip væri að ræða en eigendur myntarinnar sögðu hana vera góðan og gildan gjaldmiðil.

Atvik málsins eru þau að í fyrra flutti fólkið inn svokallaða „American Silver Eagle Bullion“ silfurmynt. Myntin er frábrugðin venjulegum myntum að því leyti að hún er gerð úr 31 grammi af nær hreinu silfri. Venjuleg mynt er hins vegar gerð úr blöndu af kopar, sinki, nikkeli og mangani.

Að baki ákvörðun Tollstjóra lá sú staðreynd að myntin væri gefin út í takmörkuðu upplagi árlega og færi ekki í almenna umferð líkt og hefðbundinn skildingur. Myntir sem þessar gengju kaupum og sölum á netinu og væri kaupverðið margfalt nafnvirði myntarinnar. Af þeim sökum bæri að greiða 24 prósenta virðisaukaskatt af innflutningi hennar.

Þessu undi fólkið ekki og kærði málið til YSKN. Byggði það á því að myntin hefði verið keypt í fjárfestingarskyni til að byggja upp sparnað sem nýta mætti sem gjaldmiðil í viðskiptum. Ekki stæði til að eiga myntina sem safngrip. Á þetta féllst YSKN ekki og staðfesti niðurstöðu Tollstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×