Enski boltinn

Tottenham og Arsenal sögð hafa áhuga á miðverði Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Bailly fær skilaboð frá Jose Mourinho áður en hann fer inná um helgina. Skiptingin var í blálokin á leiknum.
Eric Bailly fær skilaboð frá Jose Mourinho áður en hann fer inná um helgina. Skiptingin var í blálokin á leiknum. Vísir/Getty
Eric Bailly gæti yfirgefið Manchester United í janúar samkvæmt fréttum enskra fjölmiðla í morgun.

Bailly hefur misst sæti sitt í byrjunarliði Manchester United og Jose Mourinho, knattspyrnustjóri United, hefur bara notað hann til að „tefja“ tímann og landa sigrinum í undanförnum leikjum.  

Daily Mirror segir hins vegar frá því að bæði Tottenham og Arsenal hafi áhuga á að kaupa hann frá United í janúar.

Eric Bailly var í byrjunarliðinu í tveimur fyrstu umferðunum en missti sæti sitt eftir 3-2 tap á móti Brighton. Miðverðir United liðsins fengu á sig harða gagnrýni í kjölfarið.

Bailly missti sæti sitt í hópnum í næsta leik eftir Brighton hörmungarnar en hefur komið inná sem varamaður undir blálokin í tveimur undanförnum leikjum.

Eric Bailly er 24 ára gamall og landsliðsmaður hjá Fílabeinsströndinni. Hann hefur spilað með Manchester United frá 2016 þegar félagið keypti hann frá spænska félaginu Villarreal.

Bailly var fyrsti leikmaðurinn sem Jose Mourinho fékk til Manchester United eftir að hann tók við sem knattspyrnustjóri félagsins sumarið 2016.

Bailly byrjaði vel og var kosinn besti leikmaður félagsins í ágúst 2016. Síðan hefur leiðin legið niður á við. Hann glímdi mikið við meiðsli á síðustu leiktíð og hefur nú misst trú knattspyrnustjórans. Í stað þess að vera út í kuldanum gæti hann verið opinn fyrir að reyna sig á nýjum stað eins og til dæmis á Emirates eða nýja White Hart Lane.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×