Fótbolti

Þurftu að ýta sjúkrabíl í gang á miðjum fótboltavelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sjúkrabíll á fótboltavelli í Brasilíu. Myndin tengist fréttinni þó ekki beint.
Sjúkrabíll á fótboltavelli í Brasilíu. Myndin tengist fréttinni þó ekki beint. Vísir/Getty
Það getur margt gerst í fótboltaleik en leikmenn lenda þó afar sjaldan í því að þurfa að ýta sjúkrabíl í miðjum fótboltaleik. Það var hins vegar það sem gerðist í leik Flamengo og Vasco da Gama í brasilíska fótboltanum um helgina.

Uppákoman varð þegar Bruno Silva, leikmaður Vasco da Gama, fékk slæmt höfuðhögg og ákveðið var að kalla á sjúkrabíl.

Hér heima eru slasaðir leikmenn settir upp á börur og erlendis er hnjaskvagninn stundum kallaður til. Í Brasilíu hafa menn aftur á móti verið óhræddir við að hleypa sjúkrabílnum inn á völlinn. Það breytist kannski eftir ævintýri bílstjórans um helgina.





Sjúkrabílinn kom því inn á völlinn og hinn slasaði Bruno Silva var færður um borð. Þegar sjúkrabíllinn ætlaði að bruna af stað upp á spítala þá byrjuðu vandræðinn.

Bílstjórinn kom bílnum ekki í gang og þurfti að kalla á liðsinni leikmanna liðanna. Þeir gengu fljótt í verkefnið og átta þeirra enduðu síðan á því að ýta bílnum í gang.

Bruno Silva fór upp á sjúkrahús og var skoðaður í bak og fyrir. Sem betur fer var allt í lagi með hann og hann hefur verið útskrifaður.

Það má sjá þegar leikmennirnir ýta sjúkrabílnum af stað í myndbandi sem Guardian birti og er aðgengilegt hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×