Erlent

Yfirmaður þýsku leyniþjónustunnar verður látinn fara

Atli Ísleifsson skrifar
Hans-Georg Maassen hefur stýrt leyniþjónustunni frá árinu 2012.
Hans-Georg Maassen hefur stýrt leyniþjónustunni frá árinu 2012. Vísir/EPA
Hans-Georg Maassen, yfirmaður þýsku leyniþjónustunnar Bundesamt für Verfassungsschutz (BFV), verður gert að víkja úr embætti samkvæmt heimildum Die Welt.

Talið er að Angela Merkel Þýskalandskanslari hafi gert upp hug sinn og örlög Maassen ráðist um helgina, en deilurnar um Maassen hafa skapað talsverðan núning í stjórnarsamstarfi Kristilegra demókrata og Jafnaðarmanna síðustu dagana.

Maassen var mikið gagnrýndur eftir að hann dró opinberlega í efa hvort að myndband, sem sýndi árásir manna á innflytjendur í borginni Chemnitz, væri í raun ósvikið. Árásirnar áttu sér stað í tengslum við mótmælaaðgerðir í borginni á dögunum.

Maassen er jafnframt sakaður um að hafa komið leynilegum upplýsingum í hendur fulltrúa hægriöfgaflokksins Alternativ für Deutschland (AFD). Hann hefur þó staðfastlega neitað slíku.

Hafa farið fram á afsögn Maassen

Jafnaðarmannaflokkurinn, sem á aðild að stjórn Merkel, hefur farið fram á afsögn Maassen, en innanríkisráðherrann Horst Seehofer hefur hins vegar komið honum til varnar. Málefni leyniþjónustunnar heyra undir innanríkisráðuneyti landsins.

Boðað hefur verið til neyðarfundar á morgun vegna stöðunnar sem upp er komin en samkvæmt Die Welt virðist ljóst að niðurstaðan verði sú að Maassen verði látinn fara.

Der Spiegel greindi frá því um helgina að Maassen vilji stórauka mannafla BFV, eða úr 2.100 manns í um sex þúsund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×