Enski boltinn

Segir þá jafngóða og þá Firmino, Mane og Salah

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Bournemouth fagna marki Ryan Fraser um helgina.
Leikmenn Bournemouth fagna marki Ryan Fraser um helgina. Vísir//Getty
Bournemouth hefur vakið mikla athygli í fyrstu fimm umferðum ensku úrvalsdeildarinnar en liðið er nú í fimmta sæti deildarinnar með 10 stig og 10 mörk.

Aðeins Chelsea, Manchester City og Liverpool hafa skorað fleiri mörk en Bournemouth í upphafi leiktíðar og markvörðurinn Asmir Begovic hrósar mikið þriggja manna framlínu liðsins. Bournemouth vann 4-2 sigur á Leicester City um helgina.

Begovic er óhræddur við að bera sína menn við þriggja manna framlínu Liverpool, skipaða þeim Roberto Firmino, Sadio Mane og Mo Salah. Öll deildin óttast þessa þrjá hjá Liverpool en Begovic segir þriggja manna framlínu Bournemouth verða jafngóða.

„Það er ekkert lið í deildinni með betri framlínumenn en við. Við erum sóknarhugsandi lið sem vill sækja og vill skora mörk,“ sagði Asmir Begovic í viðtali við Daily Mail.

Hér er hann að tala um þá Ryan Fraser, Josh King og Callum Wilson. Fraser skoraði tvö um helgina og King eitt. Callum Wilson gaf eina stoðsedningu í leiknum en hann er með 2 mörk og 3 stoðsendingar á tímabilinu.

Ryan Fraser hefur líka komið að fimm mörkum í fyrstu fimm leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni í vetur (3 mörk og 2 stoðsendingar) og Norðmaðurinn Joshua King er með tvö mörk og 1 stoðsendingu.

„Þeir eru jafngóðir og þriggja manna framlína Liverpool þegar þeir eru í stuði. Leikstíll okkar liðs hentar þeim. Þeir skilja kerfið og hvern annan vel og vonandi halda þeir svona áfram,“ sagði Begovic.

Samtals hafa þeir Ryan Fraser, Josh King eða Callum Wilson komið með beinum hætti að 9 af 10 mörkum Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni. Það er aðeins eitt mark hjá liðinu sem enginn þeirra átti annaðhvort markið eða stoðsendinguna.

Begovic er líka á því að Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englendinga, ætti að fara kíkja meira á leiki á næstunni því að hans mati eiga menn eins og Wilson, Steve Cook og Lewis Cook að vera í enska landsliðinu.

„Nokkrir strákanna ættu að koma til greina í enska landsliðið. Þeir hafa verið að spila vel viku eftir viku. Callum, Steve Cook og Lewis Cook hafa allir verið að bæta sig. Það yrði mikil viðurkenning fyrir félagið ef þeir fá tækifæri með landsliðinu,“ sagði Begovic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×