Innlent

Þingmenn fá núvitundarþjálfun

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Breskir þingmenn og starfsfólk hafa fengið þjálfun í núvitund á síðastliðnum árum. Í framhaldinu hefur hugleiðsluaðferðin verið innleidd í breska mennta-heilbrigðis-og réttarvörslukerfinu með góðum árangri að sögn formanns nefndar í breska þinginu um núvitund. Þingmenn og borgarráð fengu kynningu um aðferðina í dag.

Chris Ruane þingmaður breska Verkamannaflokksins og formaður þverpólitískrar þingnefndar um núvitund segir að aðferðin sé víða notuð. 

„Á undanförnum 6 árum höfum við þjálfað 186 þingmenn breska þingsins og einnig fulltrúa í lávarðadeildinni í að stunda núvitund. Þeir hafa nú innleitt hana í stefnumótun sína í skólum, réttarkerfinu og á vinnustöðum. Tilgangurinn er að draga úr þjáningu í samfélaginu og stuðla að því að það dafni vel,“ segir Chris Ruane.

Hann segir að víða sé verið að nota aðferðina við góðan orðstýr. 

„Á undanförnum þremur árum hef ég haft samband við talsmenn núvitundar og stjórnmálamenn í 40 mismunandi löndum. Svíþjóð var fyrsta ríkið til að stuðla að núvitund árið 2011. Síðan kom Bretland árið 2013 og hver veit nema Ísland verði næst,“ segir hann. 

Chris Ruane kynnti málið fyrir velferðarnefnd Alþingis og í borgarráði í morgun. Þá fær þingheimur kynningu á morgun.

Halldóra Mogensen formaður velferðarnefndar segir að rannsóknir hafi sýnt að aðferðin virki og ástæða sé til þess að skoða hvort núvitund verði innleidd á vegum hins opinbera hér á landi. Þá fái þingmenn tækifæri til að  læra núvitund hjá Núvitundarsetrinu á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×