Sport

Heimsmethafinn hljóp alltaf í skólann þegar hann var lítill

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimsmethafinn í maraþoni,  Eliud Kipchoge.
Heimsmethafinn í maraþoni, Eliud Kipchoge. Vísir/Getty
Keníumaðurinn Eliud Kipchoge setti nýtt heimsmet í maraþonhlaupu í Berlín í Þýskalandi um helgina þegar hann kom í mark á tveimur klukkutímum, einni mínútu og 39 sekúndum.

Eliud Kipchoge bætti með þessu gamla heimsmetið um eina mínútu og átján sekúndur en tími hans þýðir að meðalhraði hans í hlaupinu var tuttugu kílómetrar á klukkustund sem er rosalegur hraði.

Eliud Kipchoge er orðinn 33 ára gamall en hann er ríkjandi Ólympíumeistari í maraþoni frá Ólympíuleikunum í Ríó 2016.

Saga heimsmetshafann sýnir líka að að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Kipchoge átti nefnilega mjög erfiða æsku en faðir hans lést þegar hann var lítill drengur.





Móðir hans vann sem kennari og Kipchoge átti þrjú systkini. Það var ekki auðvelt fyrir móður hans að sjá fyrir þeim öllum. Þegar hann var ungur þá hljóp hann alltaf til og frá skóla og með því lagði hann grunninn að mögnuðum hlaupaferli sínum.

Kipchoge hjálpaði fjölskyldu sinni að selja mjólk þegar hann var eldri en hætti aldrei að hlaupa. Fyrirmyndin var Patrick Sang sem varð Ólympíumeistari í 3000 metra hindrunarhlaupi í Barcelona 1992.

Patrick Sang hjálpaði Kipchoge einnig að verða betri og útvegaði hinum unga hlaupara æfingaprógramm. Samvinna þeirra átti mikinn þátt í því að Eliud Kipchoge varð einn af bestu langhlaupurum allra tíma.

„Ef ég hefði ekki hitt hann þá hefði lífið mitt orðið allt öðruvísi,“ sagði Eliud Kipchoge við New York Times.





„Ég hef alltaf sagt að þetta sé mjög einfalt. Þú þarf bara að leggja á þig vinnuna. Ef þú leggur mikið á þig, gerir það sem er til ætlast af þér, forgangsraðar almenninlega og tekur aldrei auðveldu leiðina. Þú ert aldrei frjáls ef þú styttir þér leið,“ sagði Kipchoge.







Hann elskar að hlaupa og verður að hlaupa.

„Þegar ég hleyp þá líður mér vel. Hausinn er aldrei betri, ég sef vel og nýt lífsins,“ sagði Eliud Kipchoge.

Hér fyrir neðan má sjá hann koma í mark í maraþonhlaupinu á sunnudaginn og þar fer greinilega hlaupari sem átti enn nóg eftir.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×