Erlent

Yfirmaður þýsku leyniþjónustunnar látinn fara

Samúel Karl Ólason skrifar
Hans-Georg Maassen.
Hans-Georg Maassen. Vísir/EPA
Hans-Georg Maassen, yfirmaður þýsku leyniþjónustunnar Bundesamt für Verfassungsschutz (BFV), hefur verið vikið úr starfi. Ástæða þess eru ummæli hans um að myndband af árásum á innflytjendur í borginni Chemnitz væri ekki raunverulegt. Hann mun þess í stað taka hárri stöðu í Innanríkisráðuneyti Þýskalands en deilurnar um Maassen hafa skapað talsverðan núning í stjórnarsamstarfi Kristilegra demókrata og Jafnaðarmanna á undanförnum dögum.

Maassen var sömuleiðis sakaður um að hafa komið leynilegum upplýsingum í hendur fulltrúa hægriöfgaflokksins Alternativ für Deutschland (AFD). Hann hefur þó staðfastlega neitað slíku.

Der Welt segir að í raun sé verið að hækka Maassen í tign. Leiðtogar ríkisstjórnarinnar voru ekki tilbúnir til að fella ríkisstjórnina vegna málsins og því var áðurnefnd leið farin.



Áðurnefndar árásir áttu sér stað í tengslum við mótmælaaðgerðir gegn innflytjendum í Chemnitz sem stóðu yfir fyrr í síðasta mánuði.

Jafnaðarmannaflokkurinn, sem á aðild að stjórn Merkel, hefur farið fram á afsögn Maassen, en innanríkisráðherrann Horst Seehofer hefur hins vegar komið honum til varnar. Boðað var til neyðarfundar vegna stöðunnar í dag þar sem þessi niðurstaða var ákveðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×