Erlent

Veifa kjúklingi yfir hausnum til að hljóta syndaaflausn

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Réttrúaður gyðingur sveiflar kjúklingi yfir höfðinu á félaga sínum.
Réttrúaður gyðingur sveiflar kjúklingi yfir höfðinu á félaga sínum. Vísir/AP
Yom Kippur, heilagasta trúarhátíð gyðinga, hefst við sólsetur í dag en á hátíðinni leita gyðingar friðþægingar og fyrirgefningar með föstu og bænahaldi. Henni lýkur við sólsetur annað kvöld.

Í hverfum réttrúaðra gyðinga í Jerúsalem mátti sjá rabbína framkvæma trúarathafnir í dag til að hreinsa íbúa hverfisins af öllum syndum fyrir hátíðina.

Hefðin kallast Kaparot en réttrúaðir gyðingar trúa því að með því að veifa lifandi hænsn yfir höfði sér megi yfirfæra syndir þeirra á dýrið.

Michael hefur veifað kjúklingum yfir hausum nágranna sinna til að undirbúa Yom Kippur.Mynd/Skjáskot
„Við nýtum okkur Kaparot og þannig fara allar refsingar sem okkur var ætlað yfir í kjúklingana. Þannig, með blessun Guðs, má bjarga okkur frá refsingu,“ segir Michael í samtali við Reuters fréttastofuna. Hann hefur varið deginum í að hjálpa nágrönnum sínum að hljóta syndaaflausn.

Til eru fleiri aðferðir við að losa sig við syndir sínar samkvæmt réttrúuðum gyðingum. Meðal annars með því að tæma vasana í Miðjarðarhafið og þannig kasta syndum sínum út á hafsauga.

Yom Kippur er allra heilagasti dagurinn í gyðingdómi en hann er meðal annars er lögboðinn frídagur í Ísrael. Á meðan gyðingar fasta og verja deginum í sýnagógum við bænahöld er engin sjónvarps- eða útvarpsdagskrá leyfileg, þá eru verslanir lokaðar, engar almenningssamgöngur og flugvellir lokaðir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×