Erlent

Bandarískur skurðlæknir og kærasta hans grunuð um fjölda nauðgana

Birgir Olgeirsson skrifar
Grant William Robicheaux og Cerissa Riley.
Grant William Robicheaux og Cerissa Riley. Vísir/EPA
Bandarískur skurðlæknir og kærasta hans eru grunuð um fjölda nauðgana en saksóknarar segja þau hafa notað stöðu sína í samfélaginu til að blekkja fórnarlömb sín.

Skurðlæknirinn er hinn 38 ára gamli Grant William Robicheaux en kærasta hans er hin 31 árs gamla Cerissa Riley.

Þau hafa verið ákærð fyrir að nauðga tveimur konum sem þau komust í kynni við á bar og veitingastað árið 2016.

Saksóknarar sögðu í samtali við fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC að þúsundir myndbanda hefðu fundist á símum þeirra sem væru mögulega af fórnarlömbum þeirra.

Vinna yfirvöld að því að bera kennsl á allar þær konur sem sjást á þessum myndböndum.

„Við trúum því að parið hafi notað fagurt útlit sitt og persónutöfra til að fella varnir fórnarlamba,“ sagði Tony Rackauckas, saksóknari í Orange-sýslu í Kaliforníu, á blaðamannafundi fyrr í dag.

Saksóknarinn bætti við að á nokkrum myndböndunum væri bersýnilegt að konunum hefði verið byrlað ólyfjan því þær virtust meðvitundarlausar.

„Miðað við þau sönnunargögn sem við höfum undir höndum þá gætu fórnarlömbin verið mun fleiri en okkur grunaði,“ sagði saksóknarinn.

Grant William starfaði sem bæklunarskurðlæknir nærri borginni Los Angeles.

Saksóknarar halda því fram að Grant William og Cerissa hafi nálgast konur á bar, byrlað þeim ólyfjan eða þvingað þær til að drekka mikið magn af áfengi, áður en þau fóru með konurnar aftur í íbúð Grant William þar sem brotið var á þeim.

Yfirvöld segja parið hafa sótt tónlistar- og listahátíðir á borð við Burning Man í Nevada og The Splash House Festival í Palm Springs.

Verði þau fundin sek eiga þau yfir höfði sér allt að 30 til 40 ára fangelsisvist.

Saksóknarinn sagði að fólk þekkti orðatiltækið um úlfinn undir sauðargæru og það ætti svo sannarlega við í þessu máli. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×