Enski boltinn

Ekki spilað mínútu með Chelsea á tímabilinu en gerði samt nýjan 5 ára samning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ethan Ampadu er orðinn fastamaður í velska landsliðinu en kemst ekki í hópinn hjá Chelsea.
Ethan Ampadu er orðinn fastamaður í velska landsliðinu en kemst ekki í hópinn hjá Chelsea. Vísir/Getty
Chelsea hefur gert nýjan fimm ára samning við Ethan Ampadu. Leikmaðurinn hefur þó enn ekki spilað mínútu með aðalliði félagsins á leiktíðinni.

Það er búist við miklu af stráknum í framtíðinni enda er þetta efni í fjölhæfan leikmann sem getur bæði spilað á miðjunni og í vörninni.

Ethan Ampadu er átján ára gamall og hann hefur þegar unnið sér sæti í velska landsliðinu þrátt fyrir að fá engin tækifæri hjá Chelsea.

Ethan Ampadu lagði meðal annars upp mark í 4-1 sigri Wales á Írlandi í Þjóðadeildinni á dögunum. Hann var í byrjunarliðinu í báðum leikjum.

Strákurinn spilaði einnig sjö leiki fyrir Antonio Conte á síðustu leiktíð.

Það fer ekkert á milli mála að þarna gæti verið framtíðar miðjumaður Chelsea á ferðinni





„Ég er virkilega stoltur og ánægður. Ég hlakka til næstu fimm ára og það eina sem ég þarf að gera núna er að halda áfram að leggja hart að mér og þá gerast vonandi góðir hlutir,“ sagði Ethan Ampadu við heimasíðu Chelsea.





Chelsea hefur spilað sex leiki á tímabilinu en Ethan Ampadu hefur aldrei verið í hópnum. Hann fór aftur á móti ekki á láni til annars félags og hefur nú gengið frá samningi sem gildir til 2023.

Ethan Ampadu spilaði sjö leiki með aðalliði Chelsea á síðustu leiktíð. Hann spilaði þrjá leiki bæði í bikarnum og í deildarbikarnum og var í byrjunarliðinu í tveimur leikjum í hvorri keppni.

Ampadu kom við sögu í einum leik í ensku úrvalsdeildinni eða þegar hann kom inná sem varamaður fyrir Andreas Christensen tíu mínútum fyrir leikslok í leik á móti Huddersfield í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×