Innlent

Líf ungra foreldra „einn rússíbani“ eftir 50 milljóna vinning

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Konan fjárfesti í vinningsmiðanum á lotto.is síðasta föstudagskvöld.
Konan fjárfesti í vinningsmiðanum á lotto.is síðasta föstudagskvöld. Vísir/Stefán
Ungir, tveggja barna foreldrar á höfuðborgarsvæðinu hrepptu 51,1 milljóna vinning í Lóttói síðustu helgi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskri getspá.

Í tilkynningu segir að konan hafi borið ábyrgð á miðakaupunum en hún fjárfesti í tíu röðum í mestu makindum síðastliðið föstudagskvöld á meðan eiginmaður hennar skrapp út, að því er segir í tilkynningu.

Ein þessara tíu raða skilaði hjónunum 51,1 milljón króna og er haft eftir þeim að „lífið hafi verið einn rússíbani síðan.“ Þá hafi þau ekki trúað því að þau hafi hreppt vinninginn fyrr en þau hittu starfsfólk Getspár. Í tilkynningu kemur fram að ungu hjónin hafi þegið fjármálaráðgjöf sem stendur vinningshöfum til boða.

Þá hrepptu tveir miðaeigendur, sem höfðu allar Jókertölur réttar, tvær milljónir króna í Lottói síðasta laugardags. Annar þeirra hugði á endurbætur á eldhúsi sínu og hinn ætlaði að taka húsið í gegn að utan, að því er fram kemur í tilkynningu Íslenskrar getspár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×