Íslenski boltinn

„Bara einn völlur tekinn fram í dómnum og það er Seyðisfjarðarvöllur“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn Hugins fyrir leikinn gegn Aftureldingu fyrr í
Leikmenn Hugins fyrir leikinn gegn Aftureldingu fyrr í vísir/aðsend
Það kom aldrei til greina að fara til Egilsstaða þrátt fyrir að Seyðisfjarðarvöllur væri óleikhæfur. Þetta sagði formaður knattspyrnudeildar Hugins við Fótbolta.net í kvöld.

Eitt aðalmál íslenska knattspyrnusumarsins er leikur Hugins frá Seyðisfirði og Völsungs frá Húsavík í 2. deild karla í fótbolta. Leikur liðanna frá því í ágúst var dæmdur ógildur og átti hann að verða endurtekinn í dag.

Áfrýjunardómstóll KSÍ dæmdi að leikurinn yrði endurtekinn á Seyðisfjarðarvelli og setti KSÍ hann á klukkan 16:30 í dag.

Eins og Vísir greindi frá í dag gat leikurinn hins vegar ekki farið fram þar sem leikmenn Hugins mættu ekki til leiks í Fellabæ. Leikurinn var færður þangað eftir að Huginn hafði samband við KSÍ og sagði Seyðisfjarðarvöll óleikhæfan.

Fótbolti.net hafði samband við Svein Ágúst Þórsson, formann knattspyrnudeildar Hugins, sem vísaði í dómsúrskurðinn þar sem stóð að leikurinn skildi endurtekinn á Seyðisfjarðarvelli.

„Við báðum ekki um það að leikurinn yrði færður. Við tökum ekki ákvörðun um að völlurinn sé óleikhæfur, við töldum hann óleikhæfan,“ sagði Sveinn við Fótbolta.net.

„KSÍ tekur ákvörðun hvort vellirnir séu óleikhæfir, það er ekki okkar hlutverk að dæma um það. Við mæltum með því að leiknum yrði frestað því það er bara einn völlur tekinn fram í dómnum og það er Seyðisfjarðarvöllur.“

Sveinn sagði það aldrei hafa komið til greina að fara á Egilsstaði eftir að KSÍ færði leikinn þangað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×