Erlent

Fjölskyldumorð í Gautaborg: Vaknaði við öskur fyrir utan gluggann

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn tilkynnti sjálfur um morðin skömmu fyrir klukkan 5 í morgun.
Maðurinn tilkynnti sjálfur um morðin skömmu fyrir klukkan 5 í morgun. Vísir/Getty
Karlmaður á fertugsaldri er grunaður um að hafa myrt eiginkonu sína og tvö ung börn í Frölunda í Gautaborg snemma í morgun. Nágrannakona fjölskyldunnar lýsir því í samtali við sænska dagblaðið Aftonbladet að hún hafi vaknað við hátt öskur fyrir utan herbergisglugga sinn.

Maðurinn tilkynnti sjálfur um morðin skömmu fyrir klukkan 5 í morgun. Lögregla handtók manninn í íbúðinni, þar sem lík konunnar og barnanna tveggja fundust. Hvorugt barnanna hafði náð tveggja ára aldri en lík þeirra fundust uppi í rúmum þeirra, að því er fram kemur í frétt Aftonbladet.

Sjá einnig: Myrti konu sína og börn í Gautaborg

Nágrannakona fjölskyldunnar segir í samtali við blaðið að hún hafi vaknað við skerandi hátt öskur nokkrum mínútum áður en lögreglu var tilkynnt um morðin.

„Ég heyrði í háværum manni fyrir utan gluggann minn, ég skildi ekki það sem hann sagði en röddin var há og óvægin,“ er haft eftir konunni sem ekki vill láta nafn síns getið.

Konan segist jafnframt ekki hafa þekkt fjölskylduna en hún sé þó slegin vegna málsins. Hverfið sé kyrrlátt og gott, og því afar fátítt að nokkuð þessu líkt gerist. „Ég er í losti og þetta er hræðilegt.“

Maðurinn sem grunaður er um að hafa framið morðin var fluttur á sjúkrahús en hann hafði skaðað sjálfan sig þegar lögregla kom á staðinn. Þá rannsakar lögregla nú vettvang glæpsins og hefur íbúðarhúsið verið girt af vegna rannsóknarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×