Erlent

Ætla að grandskoða almenningssalerni vegna myndavéla

Andri Eysteinsson skrifar
Suður-kóreskar konur hópuðust saman á götum Seúl í dag.
Suður-kóreskar konur hópuðust saman á götum Seúl í dag. Vísir/AP
Faldar myndavélar í almenningssalernum og mátunarklefum er orðið stórt vandamál í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu. Færst hefur í aukanna að myndbönd séu tekin af konum og þeim sé svo dreift á internetinu.

BBC greinir frá að yfir 6000 mál af þessum toga hafi verið tilkynnt á síðasta ári.

Yfirvöld í Seúl hafa því ákveðið að breyta verklagi sínu og í stað þess að salerni séu skoðuð mánaðarlega verði þau skoðuð daglega.

Fyrr á árinu mótmæltu þúsundir kvenna aðgerðaleysi stjórnvalda víðsvegar um Suður-Kóreu.

Dreifing á myndum af kynferðislegum toga er refsiverð með allt að 5 ára fangelsisvist samkvæmt suður-kóreskum lögum en dreifing myndanna í gróðaskyni kallar á allt að 7 ára fangelsisvist eða sektar upp á allt að 2,9 milljónum króna.

Þrátt fyrir að yfir 6000 mál hafi verið tilkynnt fengu eingöngu 2% ákærðra fangelsisvist.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×