Körfubolti

Keyrðu aftur yfir Norðmenn í seinni hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hluti íslenska liðsins í Noregi
Hluti íslenska liðsins í Noregi mynd/kkí

Íslenska körfuboltalandsliðið vann 31 stigs sigur á Norðmönnum, 89-58, í seinni vináttulandsleiknum í Bergen í kvöld.

Liðin mættust tvisvar á tveimur dögum í tilefni af 50 ára afmæli norska sambandsins en leikirnir eru einnig liður í undirbúningi íslenska liðsins fyrir forkeppni EM 2021.

Craig Pedersen og aðstoðarþjálfarar hans nýttu tækifærið í þessum Noregsleikjum og gáfu fastamönnum frí en skoðuðu þess í stað leikmenn sem eru að banka á dyrnar.

Emil Barja átti mjög góðan leik í kvöld og var stigahæstur með 15 stig auk þess að taka 6 fráköst og gefa 7 stoðsendingar.

Gunnar Ólafsson var hins vegar kosinn maður leiksins en hann var með 13 stig og hitti úr 5 af 6 skotum sínum. Fyrirliðinn Ólafur Ólafsson skoraði 14 stig.

Íslenska liðið vann tveggja stiga sigur í fyrri leiknum í gær eftir að hafa unnið upp 20 stiga forystu norska liðsins.

Íslensku strákarnir áttu aftur mjög góðan seinni hálfleik en að þessu sinni var íslenska liðið með sex stiga forskot í hálfleik, 36-30. Seinni hálfleikurinn vannst með 22 stigum í gær og með 25 stigum í kvöld, 53-28.

Ragnar Nathanaelsson minnti á sig með 12 stigum og 5 fráköstum á 14 mínútum og Collin Pryor var með 10 stig, 6 fráköst og 16 framlagsstig.

Danero Thomas hitti ekkert betur en í gær og var með 2 stig og 4 framlagsstig á 20 mínútum.

Stig Íslands: Emil Barja 15, Ólafur Ólafsson 14, Gunnar Ólafsson 13, Ragnar Nathanaelsson 12, Collin Pryor 10, Kristinn Pálsson 9, Kristján Leifur Sverrisson 6, Tómas Þórður Hilmarsson 6, Danero Thomas 2, Haukur Óskarsson 2.

Íslenska liðið heldur nú aftur heim til Íslands þar sem undirbúningur hefst fljótt fyrir fyrsta leik Íslands í forkeppni EuroBasket 2021 gegn Portúgal um miðjan september.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.