Innlent

Ísland ætlar að halda áfram aðhaldi í mannréttindaráðinu

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Ísland tekur sæti í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna eftir viku. Utanríkisráðherra segir að sérstaklega verði gagnrýnt að í ráðinu sitji þjóðir þar sem staða mannréttinda sé bág eins og í Saudi Arabíu, Venezúela og Filippseyjum. Þá verði áfram verði lögð áhersla á jafnréttismál og málefni barna og hinsegins fólks.

Fyrsti fundur fastanefndar Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna verður haldinn í Genf þann tíunda september og stendur í þrjár vikur en Ísland var kjörið í ráðið í júlí. Fjörutíu og sjö ríki eiga sæti í ráðinu, þar af tilheyra sjö hópi Vestur-Evrópu.

Utanríkisráðherra kynnti áherslur Íslands í utanríkismálanefnd í dag og segir að þær verði á sömu nótum og verið hefur en sérstaklega verði lögð áhersla á umbætur í sjálfu ráðinu.

„Við höfum gagnrýnt það að þau lönd sem eru í ráðinu eru langt frá því að vera til fyrirmyndar þegar kemur að mannréttindamálum. Þá er ég að vísa sérstaklega til Sádí-Arabíu, Venesúela og Filippseyja,“ segur Guðþaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.

Gagnrýnin talin hafa jákvæð áhrif

Hann segir að þessari gagnrýni hafi ekki verið tekið sérlega vel af viðkomandi löndum en aðrir hafi tekið henni fagnandi.

„Alþjóðleg mannréttindasamtök, til dæmis Human Rights Watch, telja að frumkvæði okkar gagnvart málefnum Filippseyja eða stjórnvöldum Filippseyja hafi haft mjög jákvæð áhrif. Þeir hafi þá haldið aftur af sér út af þeirri gagnrýni sem við erum með og því frumkvæði sem við höfum haft í mannréttindaráðinu,“ segir Guðlaugur Þór.

Hann bendir á að utanríkisráðherra Filipeyja hafi boðið sér að koma og skoða aðstæður mannréttinda í landinu eftir gagnrýni sína á ástandið þar.

„Ég taldi nú vænlegra að alþjóðleg samtök myndu gera það og þar sem þeir hafa ekki breytt um stefnu í grundvallaratriðum þá héldum við áfram gagnrýni okkar. Hann notaði nú tækifærið og vandaði mér ekki kveðjurnar á fundi í New York eins og margir sáu á alnetinu,“ segir ráðherrann.

Fastanefnd Íslands á sæti í ráðinu í eitt og hálft ár eða út kjörtímabilið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.