Enski boltinn

Yngsti stjórinn í enska boltanum rekinn eftir aðeins sex leiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Collins.
Michael Collins. Vísir/Getty

Michael Collins fékk ekki langan tíma með Bradford City liðið því hann hefur nú þurft að taka pokann sinn.

Michael Collins náði aðeins að stýra liði Bradford City í sex deildarleikjum áður en hann var rekinn.

Collins er aðeins 32 ára gamall og var yngsti knattspyrnustjórinn í ensku deildarkeppninni. Hann hafði í júní fengið stöðuhækkun hjá Bradford City eftir að þjálfað átján ára lið félagsins.Bradford City er í sautjánda sæti ensku C-deildarinnar eftir sex leiki en fjórir af þessum leikjum hafa tapast. Liðið vann 1-0 sigur í fyrstu umferð en hefur síðan tapað fjórum af fimm leikjum auk þess að þetta út úr deildabikarnum eftir tap á móti Macclesfield í vítakeppni.

„Ákvörðun okkar byggist á ófullnægjandi byrjun á tímabilinu og ekki nógu góðri frammistöðu inn á vellinum,“ sagði stjórnarformaðurinn Edin Rahic í yfirlýsingu frá klúbbnum.

Knattspyrnustjórastóllinn hjá Bradford City er reyndar einn sá heitasti í boltanum því eftirmaður Michael Collins verður fjórði knattspyrnustjóri félagsins á þessu ári.

„Okkur þykir virkilega vænt um þetta félag og trúum því að við séum að taka þessa ákvörðun á réttum tíma þegar allt er ennþá í boði. Við horfum nú jákvæðir fram á veginn og erum spenntir fyrir að kynna okkar nýja stjóra,“ bætti Edin Rahic við.

Bradford City skoraði aðeins fjögur mörk í leikjunum sex undir stjórn Michael Collins og aldrei meira en eitt mark í leik. Báðir sigurleikir liðsins voru 1-0 sigrar, sá fyrri á Shrewsbury Town en sá seinni á Burton Albion.

Hér fyrir neðan má sjá viðtal við Michael Collins fyrir lokaleik hans sem knattspyrnustjóra Bradford City.Nýr knattspyrnustjóri Bradford City var síðan kynntur í morgun en það er David Hopkin. David Hopkin er 48 ára gamall eða sextán árum eldri en Michael Collins. Hann var síðast stjóri hjá skoska félaginu Livingston F.C. en á að baki langan feril í enska boltanum þar sem hann spilaði meðal annars með Chelsea, Crystal Palace og Leeds United. Hopkin spilaði 11 leiki með Bradford City tímabilið 2000-01.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.