Innlent

Ekkert vitað um afdrif særða selsins með plasthringinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Til selsins sást er hann flatmagaði á ísjaka í lóninu í liðinni viku. Selurinn reyndist vera með plastnet fast um hálsinn. Mynd tengist fréttinni ekki beint.
Til selsins sást er hann flatmagaði á ísjaka í lóninu í liðinni viku. Selurinn reyndist vera með plastnet fast um hálsinn. Mynd tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Ekkert er vitað um afdrif selsins sem til stóð að aflífa skömmu fyrir helgi. Tilkynnt var um selinn í Jökulsárlóni á fimmtudag þar sem hann hafði flækst í plasthring. Samkvæmt ráðum  héraðsdýralæknis var í kjölfarið tekin ákvörðun um að aflífa dýrið.

Sjá einnig: Harmar að aflífa þurfi selinn með plasthringinn

Samkvæmt dýravelferðarlögum ber þeim sem verður var við eða má ætla að dýr sé sjúkt, sært eða bjargarlaust að öðru leyti að veita því umönnun eftir föngum, að því er fram kemur í svari Matvælastofnunar við fyrirspurn fréttastofu vegna málsins. Sé umráðamaður ekki til staðar skal tilkynna atvikið til lögreglu sem kallar til dýralækni meti hún það svo að ástæða sé til. Eftir þessu var farið í tilfelli selsins í Jökulsárlóni.

„Í þessu tilfelli hringdi lögregla og óskaði eftir ráðum dýralæknis hjá Matvælastofnun um miðjan dag fimmtudaginn 30. ágúst. Lögreglan upplýsti dýralækninn að dýrið væri sært, fast í neti, með lítil lífsmörk og óaðgengilegt. Út frá þessum upplýsingum ráðlagði dýralæknir Matvælastofnunar að dýrið yrði aflífað,“ segir í svari Matvælastofnunar.

Að kvöldi fimmtudags fór starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs að selnum en þá var hann ekki lengur þar sem hann hafði sést fyrr um daginn. Matvælastofnun hefur eftir starfsmanninum í morgun að selsins hafi ekki orðið vart frá því á fimmtudaginn. Þá er ekki vitað um afdrif hans.

Tekið er fram í svari Matvælastofnunar að stofnunin fyrirskipi ekki aflífun á selum. Samkvæmt lögunum liggur ábyrgðin hjá sveitarfélögum í slíkum tilvikum, þ.e. þegar kemur að villtum dýrum í neyð.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.