Innlent

Handfærabát var siglt upp í stórgrýtta fjöru

Birgir Olgeirsson og Gissur Sigurðsson skrifa
Bátnum var siglt á fullri ferð upp í stórgrýtta fjöruna undir Stigahlíð skammt frá Bolungarvík.
Bátnum var siglt á fullri ferð upp í stórgrýtta fjöruna undir Stigahlíð skammt frá Bolungarvík. Vísir/Hafþór Gunnarsson
Björgunarsveitarmönnum á Vestfjörðum tókst í gærkvöldi að koma á flot handfærabát, sem í gærdag var siglt upp í stórgrýtta fjöruna undir Stigahlíð, skammt frá Bolungarvík, og draga bátinn hálf sokkinn til hafnar. Þar var hann hífður upp á bryggju til að huga að skemmdum.

Einn maður var um borð þegar báturinn strandaði. Sá slasaðist ekki alvarlega en var eitthvað lemstraður. Björgunarsveitarmenn sóttu hann á björgunarbát frá Bolungarvík.

Ekki er vitað hvers vegna báturinn lenti uppi í fjörunni, en lögreglan á Vestfjörðum rannsakar nú málið.

Vísir/Hafþór Gunnarsson
Halldór Óli Hjálmarsson, hjá Björgunarfélagi Ísafjarðar, segir stórt gat vera á lestinni á bátnum og á stefninum. Erfiðlega gekk að ná bátnum úr stórgrýtinu þar sem einn steinn stakkst inn í lestina. Þurfti að snúa bátnum til að koma honum aftur út í sjó. Voru björgunarsveitarmenn að störfum fram á klukkan tvö í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×