Erlent

Bannon æfur eftir að boð hans á ráðstefnu New Yorker var afturkallað

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vísir/Getty
Stephen Bannon, fyrrverandi hægri hönd Donald Trump, forseta Bandaríkjanna er æfur eftir að boð hans á ráðstefnu á vegum bandaríska tímaritsins New Yorker var afturkallað. Fjölmargir fyrirlesarar á ráðstefnunni sögðust ætla að hætta við að mæta ef Bannon myndi láta sjá sig.

Ráðstefnan er haldin árlega af tímaritinu og þykir nokkur upphefð að fá boð um að halda fyrirlestur eða sitja fyrir svörum á ráðstefnunni. Vakti það mikla athygli þegar tilkynnt var í gær að Bannon yrði einn þeirra sem sitja myndi fyrir svörum á ráðstefnunni.

Jim Carrey, Judd Apatow, John Mulaney og Jack Antonoff voru meðal þeirra sem afboðuðu komu sína auk þess sem að starfsmenn blaðsins höfðu gagnrýnt ákvörðun um að bjóða Bannon á hátíðina. Bannon er afar umdeildur en hann var aðalarkítekt kosningabaráttu Trump sem og stefnu Trump fyrstu mánuði hans í embætti áður en Bannon lét af störfum í Hvíta húsinu.

David Remnick, ritstjóri New Yorker, tilkynnti um að boð Bannon hafi verið afturkallað í tölvupósti til starfsmanna blaðsins þar sem hann sagði að dræm viðbrögð á samfélagsmiðlum sem og á meðal starfsmanna blaðsins hafi spilað stórt hlutverk þegar ákvörðun var tekin um að afturkalla boðið.

Töldu gagnrýnendur að með boðinu fengi Bannon stórt svið til þess að breiða út boðskap sinn en Remnick hafði áður sagt að ekki yrði farið mjúkum höndum um Bannon á ráðstefnunni, hann yrði spurður erfiðra og krefjandi spurninga.

Í yfirlýsingu sem Bannon sendi New York Timeseftir að boðið var afturkallað gagnrýndi hann ákvörðun Remnick harkalega og sagði hann ristjórann vera huglausan.

„Ástæðan fyrir því að ég samþykkti boðið var einfalt: Ég myndi mæta einum óttalausasta blaðamanni sinnar kynslóðar,“ skrifaði Bannon. „David Remnick sýndi að hann var huglaus er hann stóð frammi fyrir gagnrýni hins öskrandi netmúgs.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×