Enski boltinn

Shaw: Ég missti næstum fótinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Luke Shaw fótbrotnaði í leik Manchester United og PSV í Meistaradeild Evrópu árið 2015
Luke Shaw fótbrotnaði í leik Manchester United og PSV í Meistaradeild Evrópu árið 2015 Vísir/Getty
Luke Shaw er kominn aftur í enska landsliðið eftir erfiða tíma síðustu þrjú ár. Hann segir Jose Mourinho alltaf hafa trúað á sig.

Shaw var í 23 manna hópi Gareth Southgate fyrir leikinn í Þjóðadeildinni gegn Englendingum og vináttulandsleik gegn Sviss.

Bakvörðurinn, sem er aðeins 23 ára, fótbrotnaði árið 2015 og hefur verið í meiðslavandræðum síðan þá. Hann spilaði lítið með Manchester United síðustu tímabil en hefur spilað hverja einustu mínútu í fyrstu fjórum leikjum liðsins á þessu tímabili.

„Ég hef verið óheppinn síðustu þrjú ár en það er í fortíðinni núna og ég horfi bara fram á við,“ sagði Shaw.

„Ég missti næstum fótinn. Læknirinn sagði mér það ekki fyrr en sex mánuðum seinna en það munaði mjög litlu að ég hefði misst fótinn.“

„Ég vildi sanna mig og ég hef aldrei verið betri, ekki bara inni á vellinum heldur utan hans líka. Ég er orðinn að manni.“

„Ég væri að ljúga ef ég segði að ég hefði aldrei hugsað um að hætta í fótbolta. Ég er með mikið af góðu fólki í kringum mig sem hjálpaði mér í gegnum þetta.“

Shaw á sjö landsleiki fyrir England, sá síðasti var í mars 2017.

Hann hefur verið gagnrýndur opinberlega af knattspyrnustjóranum sínum, Jose Mourinho, en Shaw segir Mourinho alltaf hafa trúað á sig.

„Jose treysti mér í upphafi tímabilsins. Á tímabili hélt fólk að hann treysti mér ekki og það hefði verið auðvelt fyrir hann að segjast vilja selja mig, en ég held hann hafi alltaf trúað á mig.“

„Þetta gerði mig sterkari andlega og ég vildi sanna mig fyrir honum,“ sagði Luke Shaw.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×