Erlent

Marco Rubio og Alex Jones rifust á göngum þinghússins

Samúel Karl Ólason skrifar
Deilurnar byrjuðu á því að Jones greip fram í fyrir Rubio og fór að kvarta yfir því að Demókratar og tæknifyrirtæki væru að þagga niður í röddum íhaldsmanna.
Deilurnar byrjuðu á því að Jones greip fram í fyrir Rubio og fór að kvarta yfir því að Demókratar og tæknifyrirtæki væru að þagga niður í röddum íhaldsmanna.
Samsæriskenningasmiðurinn Alex Jones truflaði blaðamannafund þingmannsins Marco Rubio í þinghúsinu í Bandaríkjunum í dag. Endaði það með rifrildi þeirra þar sem Rubio gaf í skyn að hann myndi lemja Jones og kallaði hann trúð. Jones kallaði Rubio meðal annars snák og glæpamann. Þeir voru staddir í þinghúsinu vegna nefndarfundar um samfélagsmiðla þar sem forsvarsmenn Facebook og Twitter voru mættir, bæði fyrirtækin hafa bannað Alex Jones frá samfélagsmiðlum sínum.

Deilurnar byrjuðu á því að Jones greip fram í fyrir Rubio og fór að kvarta yfir því að Demókratar og tæknifyrirtæki væru að þagga niður í röddum íhaldsmanna.

Rubio sagði svo að hann þekkti Jones ekki og hann færi aldrei á heimasíðu hans. Jones kallaði Rubio snák og sagði að þess vegna hefði hann ekki verið kosinn forseti og snerti öxl Rubio, sem var ekki sáttur við snertinguna og bað hann um að snerta sig ekki aftur.

Eftir nokkurn tíma gekk Rubio á brott og sagði við blaðamennina að þeir gætu verið eftir og „talað við þennan trúð“.

Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×