Innlent

Sátt um að Steinbryggjan verði sýnileg til frambúðar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bryggjan leit dagsins ljós að nýju fyrir skömmu eftir áratuga veru neðanjarðar.
Bryggjan leit dagsins ljós að nýju fyrir skömmu eftir áratuga veru neðanjarðar. Mynd/Reykjavíkurborg

Tillaga um hvernig gera megi Steinbryggjuna gömlu sem grafið var niður á í síðasta mánuði í miðborg Reykjavíkur sýnilega til frambúðar var kynnt í samgöngu- og skipulagsráði borgarinnar í gær. Góð sátt virðist vera um málið meðal fulltrúa í ráðinu.

Steinbryggjan kom í ljós á nýjan leik þegar unnið var að því að grafa fyrir nýjum frárennslislögnum við austurenda Tollhússins í Kvosinni. Bryggjan hefur ekki verið sjáanleg frá árinu 1940 er hún fór undir uppfyllingu.

Rekja má bryggjuna til gömlu Bæjarbryggjunnar frá árinu 1884 en talið er að rekja megi þann hluta hennar sem grafinn var upp til ársins 1905 og 1916.

Í ljós kom að ástand Steinbryggjunnar var heillegt og skoðaði umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar hvernig mætti varðveita þann hluta sem grafinn hefur upp til frambúðar.

Um drög er að ræða og líklegt er að endanlegt útlit muni taka einhverjum breytingum. Mynd/Reykjavíkurborg.

Setþrepum verði komið fyrir að niðurgrafinni bryggjunni

Fyrstu drög að slíkri tillögu voru sem fyrr segir kynnt fyrir ráðinu í gær og er þar gert ráð fyrir að bryggjan verði hluti af torgi við götuna. Tillagan gerir ráð fyrir að umhverfið í kringum bryggjuna verði ofar en bryggjan sjálf og komið verði fyrir tröppu og setþrepum að bryggjunni.

Aðeins er þó um drög að ræða og því má gera ráð fyrir að tillagan muni taka einhverjum breytingum áður en endanleg mynd kemst á útfærsluna en almenn sátt virðist ríkja í ráðinu um að bryggjan verði sýnileg.

Þannig bókuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að ánægjulegt væri að sjá fyrstu hugmyndir um breytta hönnun á svæðinu. Bryggjan væri í góðu ástandi og hefði mikið sögulegt gildi fyrir borgina.

Undir þetta tóku fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans í ráðinu sem fögnuðu tillögu umhverfis- og skipulagssviðs og sögðu þeir ánægjulegt að sjá hversu vel steinbryggjan hafi varðveist í tímans rás.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.