Fótbolti

Frábær sigur U21 liðsins í sjö marka leik

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Albert Guðmundsson er fyrirliði U21 landsliðsins
Albert Guðmundsson er fyrirliði U21 landsliðsins vísir/anton
Íslenska landsliðið í fótbolta skipað leikmönnum 21 árs og yngri vann öruggan sigur á Eistum á Kópavogsvelli í kvöld. Sigurinn var mikilvægur í baráttunni um sæti í lokakeppni EM U21.

Fyrir leikinn var Ísland í fjórða sæti riðilsins með 8 stig úr 6 leikjum, fjórum stigum frá Slóvökum í öðru sætinu. Fjögur bestu liðin í 2. sæti fara í umspil um sæti á EM.

Íslenska liðið byrjaði af krafti og uppskar tvö mörk á fjögurra mínútna kafla í fyrri hálfleik. Uppskriftin að báðum mörkum var sú sama, Jón Dagur Þorsteinsson með stoðsendinguna á Óttar Magnús Karlsson.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks ákvað Samúel Kári Friðjónsson að skella í eitt langskot þegar hann var kominn rétt yfir miðju. Boltin smaug í samskeytin, óverjandi fyrir eistneska markmanninn. Staðan 3-0 í hálfleik

Eftir rólega byrjun á seinni hálfleiknum skoraði Arnór Sigurðsson fjórða mark Íslands á 53. mínútu.

Stuttu seinna fékk Albert Guðmundsson boltann í höndina inni í vítateig og réttlega dæmd vítaspyrna. Frank Liivak fór á punktinn og skoraði af öryggi. Albert bætti upp fyrir vítaspyrnuna með því að skora fimmta mark Íslands eftir enn eina stoðsendinguna frá Jóni Degi.

Eistar náðu öðru sárabótamarki á 68. mínútu er Sören Kadma skoraði en sigur Íslands aldrei í hættu. Lokatölur á Kópavogsvelli 5-2.

Ísland mætir Slóvakíu á þriðjudaginn 11. september, sá leikur fer fram á Alvogenvellinum í Vesturbænum. Ísland og Slóvakía hafa nú bæði leikið sjö leiki og aðeins einu stigi munar á liðunum eftir sigur Íslands í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×