Fótbolti

Eyjólfur: Langbesti sóknarleikur sem við höfum spilað

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Eyjólfur hefur þjálfað U21 landsliðið síðustu ár
Eyjólfur hefur þjálfað U21 landsliðið síðustu ár mynd/ksí/hilmar þór
Íslenska U21 landsliðið í fótbolta vann 5-2 sigur á Eistum í undankeppni EM U21 á Kópavogsvelli í kvöld. Eyjólfur Sverrisson, þjálfari liðsins, var ánægður með sóknarleik sinna manna í kvöld.

„Þetta var bara frábær fótbolti sem við vorum að spila og sóknarleikurinn var geggjaður í þessum leik,“ sagði Eyjólfur eftir leikinn.

„Þetta var bara eins og á æfingasvæðinu í uppspilinu hjá okkur og var virkilega flott.“

Eistar eru á botni riðilsins og Ísland var í fjórða sæti fyrir leikinn, fjórum stigum á eftir Slóvökum í öðru sætinu. Fjögur bestu liðin í 2. sæti fara áfram í umspil um sæti á EM. Eyjólfur vildi þó ekki segja að þessi leikur hafi verið skyldusigur fyrir Ísland.

„Þeir komust í 2-0 á móti okkur úti og við rétt náðum að snúa því í 2-3. Þeir eru með fínt lið og maður má ekki vanmeta þá.“

„Þetta var algjörlega langbesti sóknarleikur sem við höfum spilað hingað til, en það var aðeins of þægilegt fyrir strákana og þeir voru kærulausir í varnarleiknum. En þá erum við líka með eitthvað til þess að bæta.“

„Það var bara einbeitingarleysi, þetta gekk svo vel,“ sagði Eyjólfur spurður hvað hafi farið úrskeiðis í þessum tveimur mörkum sem Ísland fékk á sig. „Sinna ekki varnarskyldunni sem átti að gera og við þurfum að leiðrétta það.“

Það er þó margt gott hægt að taka úr þessum leik í næsta leik Íslands á þriðjudaginn. „Nei, það verða bara skammir eftir þennan leik, engin spurning,“ svaraði Eyjólfur léttur.

„Stórkostlegur sóknarleikurinn, hlaupin góð og tímasetningarnar frábærar. Þetta var bara skemmtun fyrir áhorfendurnar,“ sagði Eyjólfur Sverrisson.

Ísland mætir Slóvakíu á Alvogenvellinum í Vesturbænum á þriðjudag. Eftir sigur Íslands í dag munar aðeins einu stigi á liðunum í öðru og þriðja sæti riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×