Fótbolti

Samúel Kári: Smellhitti boltann og vissi að hann færi í hornið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Samúel Kári var í HM hóp Íslands í sumar.
Samúel Kári var í HM hóp Íslands í sumar. vísir/vilhelm
Samúel Kári Friðjónsson skoraði glæsimark langt utan af velli í 5-2 sigri U21 liði Íslands á Eistum á Kópavogsvelli í kvöld.

„Þetta er nú ekki fyrsta markið sem ég skora úr langskoti. Þegar maður fær tækifærið að fara upp og það er enginn í manni, afhverju ekki að láta vaða? Það gekk í dag,“ sagði kátur Samúel Kári í leikslok í dag.

„Um leið og ég smellhitti hann þá vissi ég að hann væri að fara í hornið. Það var ekkert annað í boði.“

Sigur Íslands var mjög öruggur í dag og það var í raun kæruleysi í vörninni að fá þessi tvö mörk á sig.

„Við mættum bara rétt stemmdir í leikinn. Þegar við spiluðum á móti þeim í nóvember þá leikgreindum við þá vel og það small allt í dag. Flottur leikur.“

„Það er alveg óþarfi að fá á sig tvö mörk þegar við erum með yfirtökin í leiknum. Víti er víti en seinna markið hefðum við getað komið í veg fyrir.“

Ísland komst með sigrinum í þriðja sæti riðilsins í undankeppni EM U21. Þeir eru stigi á eftir Slóvökum í öðru sæti riðilsins, en fjögur bestu liðin í öðru sæti fara í umspil. Ísland og Slóvakía mætast á þriðjudaginn á Alvogenvellinum í Vesturbænum.

„Það eru bara önnur þrjú stig næst, það er ekkert annað í boði,“ sagði Samúel Kári Friðjónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×