Fótbolti

Jafnt hjá Portúgal og Króatíu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Luka Modric í leiknum í kvöld
Luka Modric í leiknum í kvöld Vísir/Getty
Portúgal og Króatía gerðu 1-1 jafntefli í vináttulandsleik í kvöld. Svíar töpuðu fyrir Austurríkismönnum á meðan Hollendingar unnu Perú.

Þar sem keppni í efstu deildum í Þjóðadeildinni fer fram í þriggja liða riðlum fara einnig fram vináttulandsleikir í landsleikjagluggunum tileinkuðum Þjóðadeildinni.

Portúgal og Króatía mættust í Portúgal. Cristiano Ronaldo var ekki í hóp hjá heimamönnum en Luka Modric spilaði tæpan klukkutíma fyrir Króata.

Ivan Perisic kom Króötum yfir snemma leiks og varnarmaðurinn Pepe, sem bar fyrirliðabandið í þessum leik í fjarveru Ronaldo, jafnaði metin áður en hálfleikurinn var úti. Engin mörk voru skoruð í seinni hálfleik.

Í Amsterdam skoraði Memphis Depay bæði mörk Hollands í 2-1 sigri á Perú.

Pedro Aquino hafði komið gestunum yfir á 13. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik áður en Depay tryggði Hollendingum sigurinn.

Svíar töpuðu fyrir Austurríkismönnum í Austurríki. Filip Helander skoraði sjálfsmark snemma leiks og David Alaba tryggði austurrískan 2-0 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×