Fótbolti

Maradona kominn með nýtt starf í fótboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona.
Diego Maradona. Vísir/Getty
Argentínska goðsögnin Diego Maradona er kominn með nýtt starf í fótboltanum en nú liggur leið hans til Mexíkó.

Maradona hefur sest í knattspyrnustjórastólinn hjá b-deildarliðinu Dorados de Sinaloa.

Síðasta þjálfarastarf Maradona var hjá Al-Fujairah í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en hann hætti þar í apríl.

Maradona endist oftast ekki í lengi í starfi og það verður fróðlegt að sjá hvar hann gerir í mexíkönsku b-deildinni.





Dagblöð í Mexíkó sögðu að Maradona taki við starfinu af Francisco Gamez, sem var rekinn í gær.

Diego Maradona var boðinn velkominn með stuttu myndbandi á samfélagsmiðlum félagsins með skilaboðunum „Velkominn Diego“ og „gerum þetta upp á tíu“ sem er vísun í treyjunúmer Maradona sem leikmanns.

Maradona er orðinn 57 ára gamall og vakti síðast heimsathygli þegar hann fylgdist með argentínska landsliðinu á HM í Rússlandi í sumar. Hann lék alls 91 landsleik fyrir Argentínu á árunum 1977 til 1994 og þá var hann þjálfari argentínska landsliðsins frá 2008 til 2010.

Stærsta stund Diego Maradona á knattspyrnuferlinum var einmitt í Mexíkó þegar hann leiddi argentínska landsliðið til sigurs á HM í Mexíkó árið 1986.

Maradona var þá með 5 mörk og 5 stoðsendingar í 7 leikjum en hann skoraði bæði mörk liðsins í átta liða úrslitunum á móti Englandi og undanúrslitunum á móti Belgíu og lagði síðan upp sigurmarkið í úrslitaleiknum á móti Vestur Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×