Erlent

Saka gúrú á tælenskri jóga­stöð um gróft kyn­ferðis­of­beldi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Agama Yoga-stöðinni.
Frá Agama Yoga-stöðinni. facebook-síða agama yoga
Fjórtán konur sem dvalið hafa á jógastöðinni Agama Yoga á tælensku eyjunni Koh Pangan saka gúrú stöðvarinnar, Swami Vivekandanda Saraswati, um gróft kynferðisofbeldi á meðan á dvöl þeirra á stöðinni stóð.

Þrjár þeirra segja gúrúinn, sem er frá Rúmeníu og heitir réttu nafni Narcis Tarcau, hafa nauðgað sér undir því yfirskini að um andlega heilun væri að ræða. Aðrar segja Tarcau hafa beitt þær annars konar kynferðisofbeldi í einkatímum sem hann var með á skrifstofu sinni.

Fjallað er um málið í ítarlegri umfjöllun á vef Guardian. Blaðamaður miðilsins ræddi við fjórtán konur og tvo karla vegna umfjöllunarinnar, en konurnar kusu flestar að koma ekki fram undir nafni.

„Ég veit hvað er best fyrir þig“

Öll lýsa þau því hvernig hundruð kvenna voru „heilaþvegnar“ til þess að stunda kynlíf með Narcau, allt í nafni þess að þær næðu æðri þekkingu á þeim fornu fræðum búddisma og hindú-trúar sem kennd voru í jógastöðinni.

Konurnar fjórtán sem segja frá upplifun sinni í umfjöllun Guardian koma frá Bretlandi, Ástralíu, Brasilíu, Bandaríkjunum og Kanada.

Þær ellefu sem segjast hafa orðið fyrir annars konar kynferðisofbeldi en nauðgun lýsa því að Tracau hafi stungið fingur inn í leggöng þeirra gegn þeirra vilja, hann hafi káfað og klipið í þær af áfergju eða viðhaft aðra kynferðislega tilburði við þær án þess að þær vildu það.

Þegar þær sögðu „nei,“ á Tarcau að hafa sagt við þær: „Ég veit hvað er best fyrir þig,“ áður en hann þröngvaði sér síðan á þær.

Herferð gegn stöðinni sem sé drifin áfram af hatri

Agama Yoga-stöðin var stofnuð árið 2003. Mikill meirihluti nemendanna hafa í gegnum tíðina verið konur en karlkyns nemendur lýsa einnig menningu innan stöðvarinnar þar sem óviðeigandi kynferðisleg hegðun af hálfu kennara var látin viðgangast.

Þannig hafa tveir aðrir karlkyns kennarar við stöðina einnig verið sakaðir um nauðgun og annað kynferðisofbeldi. Þeir hættu báðir störfum á stöðinni í júlí síðastliðnum eftir að ásakanirnar komu fram. Tarcau á einnig að hafa hætt þá og er ekki lengur í Tælandi.

Í yfirlýsingum sem stöðin sjálf hefur sent frá sér segir að hún harmi þær þjáningar sem margar konur hafi greint frá. Þá hafi stöðin aldrei neitað ásökunum kvennanna en því er jafnframt haldið fram í yfirlýsingu að um sé að ræða herferð gegn stöðinni sem drifin sé áfram af hatri.

Nánar má lesa um málið á vef Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×