Þjóðverjum fækkar verulega en Bandaríkjamönnum fjölgar

Brottfarir erlendra farþega frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll í ágúst síðastliðnum voru um átta þúsund færri en í ágúst í fyrra. Brottförum Þjóðverja, Frakka, Kanadamanna og Breta hefur fækkað milli ára en brottförum Bandaríkjamanna hefur fjölgað á sama tíma. Þetta kemur fram í frétt á vef Ferðamálastofu.
Brottfarir erlendra farþega frá Íslandi í ágúst voru samtals um 276 þúsund talsins, samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Færri brottfarir í ágúst milli ára má einkum rekja til Þjóðverja, Frakka, Kanadamanna og Breta sem fækkaði á bilinu 15-26 prósent. Bandaríkjamenn voru langfjölmennastir í ágúst í ár og fjölgaði verulega frá árinu áður, eða um 23,8 prósent.
Sjá einnig: Bakslag í ferðaþjónustunni verulegt áhyggjuefni
Þá hefur orðið mun minni fjölgun í brottförum erlendra farþega yfir sumarið 2018 í heild en síðustu ár. Þannig var aukning yfir sumarmánuðina nú 1,4% á milli ára samanborið við 17,1% aukningu milli ára 2016-2017, 30,9% milli ára 2015-2016 og 24,4% milli ára 2014-2015.
Frá áramótum hafa tæplega 1,6 milljónir erlendra farþega farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 3,4% fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra.
Fjallað var um bakslag í ferðaþjónustunni í vikunni og lýsti Bjarnheiður Halldórsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, yfir þungum áhyggjum af stöðunni. Þá var einkum vísað til samdráttar á Þýskalandsmarkaði, sem tölur yfir brottfarir frá Keflavíkurflugvelli í ágúst endurspegla.
Tengdar fréttir

Bókun metin á rúmlega milljarð króna árið 2017
Norvik, sem er í eigu fjölskyldu Jóns Helga Guðmundssonar sem oft er kenndur við Byko, keypti tæplega 24 prósenta hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Bókun fyrir um tvær milljónir evra, jafnvirði um 255 milljóna króna, árið 2017.

Bakslag í ferðaþjónustunni verulegt áhyggjuefni
Bjarnheiður Hallsdóttir telur samdráttinn beintengdan styrkingu krónunnar.

Eftir miklu að slægjast í vösum asískra ferðamanna
Flestir auðjöfrar heimsins koma nú frá ríkjum Austur-Asíu