Innlent

Strætó vísar ásökunum Sönnu um níðingsskap til föðurhúsanna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sanna segir að hækka þurfi launin og hlúa betur að fólki.
Sanna segir að hækka þurfi launin og hlúa betur að fólki. Vísir/Vilhelm

Strætó bs. vísar ásökunum Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, um níðingsskap og spillt hugarfar á bug. Sanna sakaði fyrirtækið um að „leigja fólk“ í gegnum starfsmannaleigur og greiða því „lægstu laun“ á borgarstjórnarfundi á þriðjudag.

Sanna ræddi stöðu innflytjenda og hælisleitenda í ræðu sinni á fundinum. Í ræðunni, sem hún birti í heild á Facebook-síðu sinni, segir hún áðurefnda samfélagshópa eiga undir högg að sækja á húsnæðis- og vinnumarkaði. Þá sakar hún fyrirtækið Strætó bs. um níðingsskap og spillingu.

„En nú er þessi níðingsskapur orðið normið á leigumarkaði og yfirgangur fyrirtækja á starfsfólki sínu er líka orðið normið. Starfsmannaleigur ná langt inn í opinber fyrirtæki. Strætó hefur leigt fólk sem starfsmannaleigur greiða lægstu laun og starfsmannaleigurnar ná svo peningum af með því að leigja því bedda í margra manna herbergi fyrir svívirðilegt verð,“ segir í ræðu Sönnu.

„Félagslegar stofnanir eins og strætó er orðinn spilltur af þessu hugarfari sem sprettur af því að við slepptum kapítalistum og okrurum á fólk.“

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir fyrirtækið fordæma málflutning Sönnu og vísar ásökunum hennar um spillt hugarfar og níðingsskap gagnvart starfsfólki til föðurhúsanna.

Sanna sendi Strætó bs. fyrirspurn vegna málsins áður en hún flutti ræðuna í borgarstjórn. Í skriflegu svari Sigríðar Harðardóttur, mannauðsstjóra Strætó bs., við fyrirspurn Sönnu segir að starfsmenn Strætó séu með ráðningarsamning beint við fyrirtækið og þeim séu greidd laun í samræmi við kjarasamning Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Strætó. Svar Sigríðar má sjá í heild hér að neðan.

„Starfsmannaþjónustan Elja hefur sl. 3 ár aðstoðað Strætó við að ráða vagnstjóra til starfa. Ólíkt öðrum viðskiptavinum Elju þá eru viðkomandi starfsmenn með ráðningasamning beint við Strætó líkt og allir aðrir starfsmenn fyrirtækisins og fá laun skv. kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Strætó.“


Tengdar fréttir

Valdefling strætófarþega rædd á fyrsta fundi borgarstjórnar

Fyrsti fundur nýrrar borgarstjórnar fer fram í dag. Kosið verður í nefndir og ráð og tekinn verður fyrir fjöldi tillagna frá nýjum borgarfulltrúum. Fulltrúi Sósíalistaflokksins, Sanna Magdalena Mörtudóttir, leggur fram fjölmargar tillögur meðal annars um valdeflingu fyrir tiltekna hópa sem nýta þjónustu borgarinnar. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.