Fótbolti

Sane yfirgaf þýska landsliðshópinn

Sane í leiknum í gær
Sane í leiknum í gær Vísir/Getty
Leroy Sane hefur yfirgefið þýska landsliðshópinn eftir spjall við landsliðsþjálfarann Joachim Löw í dag. Sane er sagður fara af „persónulegum ástæðum.“

Sane kom inn sem varamaður undir lok leiks Þjóðverja og Frakka í Þjóðadeildinni í gærkvöld þar sem liðin gerðu markalaust jafntefli.

Þýska knattspyrnusambandið greindi frá því í dag að miðjumaðurinn ungi hefði yfirgefið hópinn af persónulegum ástæðum eftir að hafa rætt við Löw.

Hugarfar Sane hefur verið í umræðunni síðustu daga. Hann var ekki í leikmannahópi Manchester City í síðasta leik liðsins fyrir landsleikjahlé sem hóf sögusagnir um að ekki væri allt í blóma á milli hans og knattspyrnustjórans Pep Guardiola.

Liðsfélagi Sane í landsliðinu, Toni Kroos, lét hafa eftir sér í vikunni að stundum væri eins og Sane væri alveg sama hvort hann vinni eða tapi fótboltaleikjum.

Þýskaland spilar vináttuleik við Perú á sunnudaginn áður en landsleikjahléinu lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×